85% ljósmæðra segir öryggi mæðra í hættu

85% ljósmæðra segja öryggi mæðra hafa verið stofnað í hættu einhvern tímann á síðustu 6 mánuðum vegna manneklu og 48% segja þetta gerast oftar en áður, þar af 61% í vaktavinnu. Tæplega þriðjungur ljósmæðra hefur íhugað að hætta alfarið að starfa sem ljósmóðir á síðustu tveimur árum. Of mikið álag, mannekla og óánægja með styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu eru nefndar sem veigamiklar ástæður. Er þetta meðal þess sem kemur fram í könnun BHM sem framkvæmd var fyrir Ljósmæðrafélag Íslands í janúar 2024. Könnunin náði til um 300 ljósmæðra á landsvísu og var svarhlutfallið rúmlega 70%.

Mynd frá Ljósmæðrafélagi Íslands.

72-93% segja manneklu ógna öryggi mæðra

Horft til síðustu sex mánaða segjast 85% ljósmæðra hafa lent í aðstæðum þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga. Hlutfallið er 72% í dagvinnu og 93% í vaktavinnu. Athygli vekur að 39% aðspurðra í vaktavinnu segjast oft hafa lent í þessum aðstæðum á síðustu 6 mánuðum.

Þegar spurt var hvort þessi staða kæmi upp sjaldnar, jafn oft, oftar eða mun oftar en áður er 48% sem segir oftar vegið að lágmarksöryggi sjúklinga en áður, þar af 61% aðspurðra í vaktavinnu.

70% segja álag hafa aukist og nær þriðjungur íhugað að hætta í starfi

Þegar spurt var um upplifun af álagi í starfi eru 75% sem segja álagið vera mikið eða of mikið. 70% segja álagið hafa aukist frá því sem áður var, þar af 74% starfandi í vaktavinnu.

Sérstaka athygli vekur að 54% aðspurðra hefur íhugað að hætta í starfi á síðustu tveimur árum. Þar af eru 27-30% sem segjast hafa íhugað að hætta alfarið að starfa sem ljósmóðir.

54% ljósmæðra í vaktavinnu hjá ríki óánægðar með styttingu vinnuvikunnar

Þegar spurt var um upplifun af breyttum starfsaðstæðum með tilkomu betri vinnutíma (styttingu vinnuvikunnar) kemur í ljós að 54% ljósmæðra í vaktavinnu hjá ríkinu telur starfsaðstæður hafa versnað með tilkomu betri vinnutíma en aðeins 30% telja starfsaðstæður hafa batnað. Mikil ánægja er með betri vinnutíma meðal ljósmæðra í dagvinnu en óánægja í vaktavinnunni tengist helst svokölluðum „vaktahvata“ og neikvæðum áhrifum styttingarinnar á sveigjanleika í starfi.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt