Ár togstreitunnar
Í mínum huga einkenndist árið sem er að líða af ýmiss konar togstreitu. Við áramót er ekki laust við að maður finni fyrir henni. Öll upplifum við líklega blendnar tilfinningar þegar horft er til síðustu tólf mánaða.
Í mínum huga einkenndist árið sem er að líða af ýmiss konar togstreitu. Við áramót er ekki laust við að maður finni fyrir henni. Öll upplifum við líklega blendnar tilfinningar þegar horft er til síðustu tólf mánaða.
Í byrjun ársins horfði þjóðin fram á erfiðasta tímann frá upphafi heimsfaraldurs. Lömun vinnumarkaðar og grunninnviða vofði yfir og tveggja ára samstaða um ssóttvarnaráðstafanir virtist rofin. Kallað var eftir skýrum skilaboðum og stefnu, jafnt úr röðum launafólks og atvinnurekenda. Sífellt erfiðara var að réttlæta harðar ssóttvarnaráðstafanir hjá bólusettri þjóð.
Blessunarlega hurfu sóttvarnaraðgerðir ein af annarri á fyrstu vikum ársins og ekki reyndi frekar á samstöðuna. Líf okkar varð mestmegnis hefðbundið á ný. Togstreita tengd COVID-19 lifir þó enn og fólk veltir fyrir sér langtímaafleiðingunum. Voru sóttvarnaráðstafanir réttlætanlegar? Voru heimildir til hafta á frelsi fólks of víðtækar? Var gengið of langt? Of skammt?
Við höfðum þó varla náð að pakka síðustu grímunum aftast í kústaskápinn þegar ný óhamingja dundi yfir heimsbyggðina. Það hafði lengi legið í loftinu að líklega drægi til tíðinda á ný í árásarstríði Rússlands gegn Úkraínu. Bandaríkjamenn vöruðu við því bæði beint við stjórnvöld annarra ríkja og opinberlega í fjölmiðlum. Flest skelltu þó skollaeyrum við slíkum viðvörunum, meira að segja leiðtogar Úkraínu.
Upphaflega réðist Rússland inn í Úkraínu veturinn 2014. Í febrúar og mars sama ár hernam Rússland Krímskaga og efndi til hernaðar í austurhéruðum Úkraínu. Þá var reyndar ekki talið útilokað að Rússland myndi ganga enn lengra og reyna frekari landvinninga. Ekki varð úr því fyrr en átta árum síðar.
Átta ára togstreita varð að stríði og kyrrstaðan var rofin með afgerandi hætti. Ekki sér fyrir endann á stríðinu, stríði hvers afleiðingar merkjast til Íslands hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Í upphafi ársins náði kaupmáttur sögulegum hæðum en hefur minnkað um nær 4% síðan. Tvöfaldur kaupmáttarbruni í lok sumars varð sorgleg staðreynd og verðbólga í samfloti verulegra hækkana stýrivaxta komu hart við veski okkar flestra. Í janúar 2022 var ekki margt sem benti til þess að erfiðar kjaraviðræður væru fram undan þó það lægi fyrir að kjarasamningar á almennum markaði myndu renna sitt skeið fyrir árslok. Óróleiki á erlendum mörkuðum og sögulegar hækkanir á innlendum fasteignamarkaði bentu þó til þess að blikur væru á lofti.
Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við þessari vá var misjöfn. Innan ASÍ jókst togstreita sem áður var lítt dulin og leiddi til þess að þáverandi forseti sambandsins fékk nóg og hætti. Formenn félaga innan þess töluðu um yfirvofandi átök og að bætur fyrir tap launþega vegna verðbólgu og vaxtahækkana yrðu sóttar fast við kjarasamningsborðið.
BHM bar gæfu til að fara aðra leið og í stað innri togstreitu undanfarinna ára var ákveðið að ganga saman til viðræðna við samningsaðila aðildarfélaga bandalagsins. Fyrst mun reyna á þá samstöðu þegar raunverulegar viðræður hefjast, sem verður vonandi sem fyrst á nýju ári. BHM kynnti sameiginlegar megináherslur aðildarfélaga sinna opinberlega í aðdraganda viðræðna.
Þrátt fyrir að haustið hafi borið með sér vísi að átökum á almennum markaði hafa flest félög innan ASÍ náð samningum við atvinnurekendur á síðustu vikum. Þegar þetta er skrifað hafa fyrstu samningar þegar hlotið samþykki félagsfólks og nú lítur út fyrir að meiriháttar átökum á vinnumarkaði hafi verið afstýrt um sinn. Það á þó eftir að semja við eitt stórt félag sem hvorki er þekkt fyrir eftirgjöf né átakafælni.
Þó það sé friðvænlegra á íslenskum vinnumarkaði um sinn eru ekki öll kurl kominn til grafar. Erfiðasti hjallinn er líklega enn eftir á almennum markaði og allir samningar á þeim opinbera eru lausir í lok mars. Það hvílir því mikil ábyrgð á okkur sem eigum eftir að semja.
Áskoranir eru margar. Reglulega er því haldið fram að opinberir starfsmenn séu farnir að leiða launaþróun. Það er rangt. Þvert á móti hefur verið tilhneigingin undanfarin ár að færa starfskjör hjá hinu opinbera nær þeim sem bjóðast á almennum markaði. Þó rangfærslan sé leiðrétt og mótmælt hentar það hagsmunum einhverra að halda áfram að tala með þessum hætti. Óneitanlega hefur það leitt af sér ákveðna togstreitu.
Staðreyndin er að á opinberum vinnumarkaði, og þá sérstaklega hjá sveitarfélögum, tíðkast vanvirðing við vinnuframlag. Einkum meðal þeirra starfsgreina sem krefjast sérfræðiþekkingar og er fyrst og fremst sinnt af konum. Þarna er leiðrétting löngu tímabær. Staðreyndin er líka að slík leiðrétting er bæði bundin í lög og samninga en staðið hefur á efndum. Þeirra verður ekki beðið lengur. Sú togstreita verður ekki leyst nema á einn veg - að orð skulu standa.
Illu heilli sér ekki fyrir endann á stríðsrekstri í Úkraínu. Minni líkur eru til lausnar þar en friðarvonir á íslenskum vinnumarkaði. Áhrifa stríðsins mun því áfram gæta á erlendum mörkuðum sem aftur hefur áhrif hingað heim. Leiðin til lausnar þar er hins vegar að láta hvergi deigan síga í stuðningi okkar við Úkraínu og íbúa þess í baráttu fyrir tilvist sinni og frelsi, heldur bæta í.
Togstreitan milli lýðræðis og einræðis, frelsis og ánauðar, virðingar og hrokans lifir því miður enn. Vonandi ber okkur Íslendingum hins vegar gæfa til að sameinast réttum megin þeirrar víglínu á nýju ári. Togstreita milli ólíkra hagsmuna getur verið hreyfiafl til góðs og leitt til ákveðins jafnvægis og sanngjarnra málamiðlana. Jafnvel þegar gerð samninga lýkur, því á endanum þarf jú alltaf að semja, halda verkefnin áfram. Og þau eru ærin.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 28.12.2022