
Tryggingastofnun hefur um langt árabil meðhöndlað lífeyrisgreiðslur frá öðrum EES-ríkjum eins og um greiðslur úr íslenska lífeyrissjóðakerfinu væri að ræða.
Sú framkvæmd er í andstöðu við meginreglur EES-samningsins um frjálsa för launafólks og samhæfingu almannatrygginga innan EES.
Málið varðar þann hóp lífeyrisþega sem hefur starfað á Íslandi og í öðrum EES-ríkjum á mismunandi tímabilum starfsævinnar og framfleytir sér með lífeyrisgreiðslum frá viðkomandi ríkjum. Staða þeirra er því önnur en lífeyrisþega sem hafa varið allri starfsævinni á íslenskum vinnumarkaði.
Réttindi til lífeyris í almannatryggingum EES-ríkja eru skilgreind sem hlutaréttindi og ber sérhverju ríki að greiða út þau lífeyrisréttindi óháð lífeyristekjum sem lífeyrisþegi gerir tilkall til samkvæmt löggjöf annarra ríkja.
Sem dæmi má nefna að lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar eða íslenskra lífeyrissjóða hafa engin áhrif til skerðingar á lífeyri almannatrygginga í Danmörku eða Noregi.
Frumvarp ráðherra boðar löngu tímabærar breytingar á stjórnsýslu þessara mála. Um jákvætt skref er að ræða.
BHM kallar hins vegar eftir skýringum stjórnvalda á því hvernig þau hyggjast bæta þeim hópi lífeyrisþega það tjón sem orðið hefur á umliðnum árum vegna tekjuskerðinga Tryggingastofnunar.
Rétt þykir að minna á þá augljósu staðreynd að í kjölfar starfsloka er sjaldnast um frekari möguleika einstaklinga til tekjuöflunar að ræða. Þess vegna er afar mikilvægt að stjórnvöld fari rétt með og skerði ekki lífeyristekjur fólks að ósekju.
Tengdar færslur
- 5. júní 2023
Gervigreind fylgja bæði tækifæri og áskoranir
- 2. júní 2023
Ný framkvæmdastjórn BHM
- 2. júní 2023
Hafa BHM, fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn öll rangt fyrir sér?
- 30. maí 2023
Myndasyrpa frá aðalfundi BHM
- 26. maí 2023
BHM styður verkfallsaðgerðir BSRB
- 25. maí 2023
Kolbrún tekin við sem formaður BHM