Frá vinstri, Valdimar, Kolbrún, Guðrún, Ósk og Gissur
Undanfarin ár hefur BHM stutt við samfélagsleg málefni valinna félagasamtaka við jól og áramót. Í þetta sinn var ákveðið að styrkja Hollvini Grensásdeildar og í dag afhenti Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM Guðrúnu Pétursdóttur formanni stjórnar Hollvina Grensásdeildar 500.000 krónur sem notaðar verða í þágu félagsins.
Hollvinir Grensásdeildar safna nú fyrir sérhæfðum tækjabúnaði í nýtt húsnæði Grensásdeildar en skóflustunga að viðbyggingu deildarinnar var tekin 5. október sl. Húsnæðið er sérhannað að þörfum endurhæfingar og verður mikil lyftistöng fyrir starfsemi Grensásdeildar. Endurhæfingardeild Grensás var opnuð 1973 og hefur því verið starfrækt í 50 ár.
Ásamt Guðrúnu formanni Hollvinanna voru viðstödd þau Valdimar Guðnason gjaldkeri stjórnar og Ósk Sigurðardóttir verkefnastjóri afmælisárs Grensásdeildar og með Kolbrúnu var framkvæmdastjóri BHM Gissur Kolbeinsson.