BHM nær rammasamkomulagi við ríki og borg

BHM hefur náð rammasamkomulagi til 12 mánaða um meginefni nýrra kjarasamninga aðildarfélaga bandalagsins. Samkomulagið er við fulltrúa ríkisins annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar.

Á næstu dögum munu aðildarfélög BHM eiga fundi með ríki og borg til að klára endanlega samninga.

Stefnt er að því að ljúka sambærilegu rammasamkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga innan tíðar.

Samkomulagið er á sambærilegum nótum og samningar sem þegar hafa verið gerðir á almennum vinnumarkaði. Það felur í sér prósentuhækkanir með ákveðnu lágmarki og hámarki í krónutölum, auk lagfæringa á launatöflum þar sem það á við. Ef samkomulagið verður samþykkt gilda samningarnir til 31. mars 2024. Rammasamkomulagið tryggir einnig mikilvæga samfellu í gildistíma kjarasamninga en markmiðið var að láta samninga taka við af samningum. Það gengur upp hjá þeim félögum sem sem samþykkja samkomulagið.

Samhliða rammasamkomulaginu var undirritað sérstakt áfangasamkomulag um jöfnun launa. Það er í samræmi við skuldbindingar vegna lífeyrissamkomulagsins frá 19. september 2016. Í samkomulaginu felst að fyrsta innborgun komi til framkvæmda 1. október næstkomandi hjá þeim hópum sem búa við mestan ójöfnuð og starfa innan heilbrigðisgeirans við klíníska þjónustu og þeirra sem starfa við kennslu.

Meirihluti þeirra sem starfa innan þessara stétta hjá opinberum launagreiðendum eru konur. Árum saman hafa verið sterkar vísbendingar um kerfisbundinn og ómálefnalegan launamun sem þarf að uppræta. Ef vel tekst til með þetta fyrsta skref mun það vonandi hafa varanleg áhrif til jöfnunar launa hjá þessum hópum og gefa skýrt fordæmi fyrir áframhaldandi vinnu og umbótum í mati á virði starfa. Það er sameiginlegt markmið allra sem koma að þessum samningum að tryggja að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnisfær til lengri tíma.

Báðir þessir áfangar, rammasamkomulag um framlengingu kjarasamninga og áfangasamkomulag um jöfnun launa, hafa unnist í samfloti heildarsamtaka launafólks á opinberum vinnumarkaði - BHM, BSRB og KÍ. Virði og styrkur þess samstarfs og samstöðu verður seint metin til fjár og byggt verður enn frekar á þessu samstarfi til framtíðar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt