Fyrir helgi féll dómur í máli flugvirkja hjá Samgöngustofu þar sem krafist var viðurkenningar á því að tími sem flugvirkinn varði í ferðir á vegum Samgöngustofu til útlanda teldist vinnutími, frá því hann yfirgaf heimili sitt og þar til hann kom á áfangastað og öfugt á heimleiðinni.
Að fengnu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins var það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að þær stundir sem flugvirkinn varði í ferðir á vegum Samgöngustofu teldust í skilningi vinnuverndarlaga vinnutími, að frádregnum þeim tíma sem að jafnaði tók starfsmanninn að keyra til og frá fastri starfsstöð. Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms að öðru leyti en því að ekki var talin ástæða til að draga frá ferðatíma þann tíma sem tæki að jafnaði að ferðast til og frá fastri starfsstöð.
Þessi niðurstaða er í samræmi við afstöðu BHM og aðildarfélaga til þess tíma er starfsmenn verja í ferðalög á vegum vinnuveitenda. Það skýtur skökku við að starfsmaður sé á samfelldu ferðalagi frá 5:00 að morgni til 20:30 að kvöldi og aðeins dagvinnutímabilið frá 8:00 til 16:00 teljist til vinnutíma en tíminn snemma að morgni og eftir 16:00 teljist hvíldartími.
Telja má líklegt að ríkið óski eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og reyni að fá dómnum hnekkt þar. Er því óvíst að svo stöddu hvort um endanlega niðurstöðu er að ræða. Niðurstaðan er engu að síður fagnaðarefni og í fullu samræmi við kröfur stéttarfélaga. Þá er hún vel rökstudd og í samræmi álit EFTA og hefur nú verið staðfest bæði af Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.