Eitt tengist öðru

Grein varaformanns BHM sem birtist í 166. blaði Stundarinnar

Það er alltaf stórt verkefni að skrifa um árið sem er að líða og gera það upp. Þegar ég fór að brjóta heilann um árið 2022 komu erfiðleikar tengdir Covid, loftslagsmálin og Cop-27 ásamt stríðsrekstri Pútíns í Úkraínu fyrst upp í hugann. Þessir atburðir sem ég nefni gætu sumir virkað fjarlægir en aðra tengjum við betur við. Staðreyndin er samt sú að atburðir og breytingar úti í hinum stóra heimi hafa bein áhrif á okkur öll. Það höfum við sannarlega fengið að reyna þetta árið. Við finnum áhrifin á heimilisbókhaldið, öryggiskennd okkar og hugmyndir um framtíðina. Við finnum hvernig eitt tengist öðru.

Að mörgu leyti var 2022 ömurlegt ár. Ekkert er þó einhlítt í veröldinni og alltaf er hægt að líta á málin frá fleiri en einni hlið. Þess vegna hlýtur árið að hafa verið bæði gott og slæmt. Gott fyrir sum okkar og slæmt fyrir önnur. En að líkindum bæði gott og slæmt fyrir flest okkar.

Málefnin sem eru okkur efst í huga við áramót eru oftar en ekki þau sem hæst hefur borið í fréttum fjölmiðla á árinu. Við vitum þó að fjölmiðlaumfjöllun um stærstu átakamálin er brotakennd og þarf ekki alltaf að gefa raunsanna mynd. Hvað þá að fréttaumfjöllun sýni fram á hvernig leysa megi þá málefnalegu rembihnúta sem um er fjallað. Sjálfum hættir okkur líka til að dofna undan áleitnum fréttaflutningi af hörmungarástandi sem ekkert okkar megnar að takast á við þó við finnum sárt til með þeim sem um er fjallað. Fréttir af loftslagvá og stríði eru slík dæmi.

Stærstu átakamál samtímans eru svo flókin úrlausnar að örðugt reynist að fjalla um þau með lausnamiðuðum hætti. Auk þess sem átakalínurnar eru gjarnan teiknaðar upp í svarthvítu þannig að umræða um þau vill lenda í öngstræti tvíhyggju sem torveldar skynsamlega nálgun við lausn þeirra. Hin pólitísku öfl í veröldinni eiga greinilega í vandræðum með að takast á við heimsmálin af víðsýni, meðlíðan og samkennd. Þeim sem fara fyrir pólitískum fylkingum hættir eins og öðrum til að nálgast vandamálin með áberandi rörsýn og því reynist erfitt að sjá heildarmyndina eða það hvernig eitt tengist öðru. Upp í hugann koma heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í þeim felast skilaboð til okkar allra um nauðsyn þess að við breytum hegðun okkar í grundvallaratriðum ef okkur á að takast að koma jörðinni lítt skaddaðri og í lífvænlegu ástandi til þeirra sem á eftir okkur koma.

Tilvistarleg álitamál eru snúin viðureignar. Hvort sem þau eru persónuleg eða ná til fjölda fólks og lífríkis jarðarinnar að auki. Við áramót er því tilhlýðilegt að horfa yfir farinn veg með þakklæti fyrir það sem áunnist hefur þrátt fyrir allt. Á þessu augnabliki leyfi ég mér að vera þakklát fyrir listirnar sem auðga líf mitt og fjölskyldu minnar öllum stundum og fyrir allt hæfileikaríka listafólkið sem við stöndum í þakkarskuld við fyrir að tengja okkur við gersemar af ýmsu tagi sem aldrei verða metnar til fjár.

Það hafa sannarlega verið átök fólgin í baráttunni fyrir skilningi á störfum listamanna og hún hefur oft verið snúin. Um það get ég vitnað þar sem hún hefur verið hluti af lífi mínu og starfi á vettvangi listanna gegnum árin. En öll litlu skrefin sem stigin hafa verið með samtakamætti og óeigingjörnu framlagi fjölda fólks hafa skilað ánægjulegum árangri á ýmsum sviðum lista og menningar. Við það má ylja sér við áramót og nú hafa örlögin hagað því þannig að við mér blasir nýr vettvangur sem varaformaður BHM, en flest stéttarfélög listamanna eru hluti af því samfélagi. Ætli það sé ekki einmitt það sem upp úr stendur hvað mig varðar persónulega á árinu 2022. Nýr veruleiki, víðari sjóndeildarhringur og annars konar verkefni en áður. Verkefni sem gera kröfu um að horft sé til heildarinnar og það hvernig eitt tengist öðru. Því kveð ég árið með þá von í brjósti að okkur lánist að skila góðu starfi í réttinda- og kjarabaráttunni fram undan.

Kolbrún Halldórsdóttir formaður Félags leikstjóra á Íslandi og varaformaður BHM.

Greinin birtist fyrst 21. desember 2022 í 166. blaði Stundarinnar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt