Félagsfólk BHM á opinbera markaðnum sem á aðild að Starfsþróunarsetri getur sótt námskeið hjá Starfsmennt fræðslusetri

Starfsmennt og Starfsþróunarsetur háskólamanna gerðu í lok september með sér samning sem heimilar félagsfólki aðildarfélaga BHM, sem á rétt hjá Starfsþróunarsetrinu og starfar hjá ríki, sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum, að sækja námskeið og annars konar fræðslu á vettvangi Starfsmenntar.

Ganga ekki á persónulegan rétt sinn hjá Starfsþróunarsetri

Markmið samningsins er að veita starfsfólki ríkis, sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana, sem aðild á að Starfsþróunarsetrinu og er í þeim aðildarfélögum sem eiga aðild hjá Starfsþróunarsetrinu, aðgang að fræðslu og þjónustu á vegum Starfsmenntar.

Með samningnum er stigið skref í átt að auknu samstarfi í þágu hæfnieflingar starfsfólks og vinnustaða um land allt og mun samstarfið m.a. auðvelda stofnunum enn frekar að sinna fræðslu og þjálfun starfsfólks á skipulagðan og stefnumiðaðan máta.

Félagsfólk þeirra 17 aðildarfélaga BHM, sem aðild eiga að Starfsþróunarsetrinu og starfa á opinbera markaðnum, getur sótt námskeið, námsleiðir, fyrirlestra og aðra fræðslu sem skipulögð er af Starfsmennt og styrkir setrið þátttöku þeirra að fullu.

Vinsamlegast athugið að þetta á ekki við um allt félagsfólk þessara aðildarfélaga heldur eingöngu þau sem starfa á opinbera markaðnum (ríki og sveitarfélög), félagsfólk sem starfar á almenna markaðnum getur ekki sótt fræðslu Starfsmenntar endurgjaldslaust þótt það greiði til setursins.

Þetta eru virkilega góðar fréttir. Þessi samningur veitir stórum hluta félagsfólks aðildarfélaga BHM, sem starfar í opinbera geiranum, aðgang að mikilvægri fræðslu og auknum tækifærum til starfsþróunar

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM.

Fjölbreytt námskeið í boði

Fjölbreytt námskeið eru í boði hjá Starfsmennt sem félagsfólk er hvatt til að skoða vel. Hér er hægt að sjá yfirlit yfir næstu námskeið.

Nánari leiðbeiningar til einstaklinga um hvernig skuli haga skráningu til að virkja rétt sinn er að finna á síðunni greiðsluþátttaka hjá Starfsmennt.

Listinn yfir stéttarfélög BHM sem eiga aðild að Starfsþróunarsetri er birtur hér að neðan.

Hvað er Starfsmennt?

Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 og er samstarfsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytisins og flestra aðildarfélaga BSRB um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf á sviði mannauðseflingar.

Hlutverk Starfsmenntar er að:

 • bjóða opinberum starfsmönnum víðtæka möguleika til menntunar og þroska.
 • aðstoða stjórnendur við mótun vinnustaðamenningar og starfsumhverfis sem miðar að því að auka ánægju og hvatningu í starfi.

Starfsmennt er til húsa í Skipholti 50b, 3.hæð. Þar er boðið upp á frábæra aðstöðu til funda- og námskeiðahalds, aðkoman er þægileg og næg bílastæði.

Nánar má lesa um fræðslusetrið Starfsmennt á vef setursins.

Aðildarfélög Starfsþróunarseturs eru:

 • Dýralæknafélag Íslands
 • Félag geislafræðinga
 • Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins
 • Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum
 • Félag íslenskra náttúrufræðinga
 • Félag leikstjóra á Íslandi
 • Félag lífeindafræðinga
 • Félag sjúkraþjálfara
 • Félagsráðgjafafélag Íslands
 • Iðjuþjálfafélag Íslands
 • Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga
 • Ljósmæðrafélag Íslands
 • Prestafélag Íslands
 • Sálfræðingafélag Íslands
 • Stéttarfélag lögfræðinga
 • Viska - stéttarfélag
 • Þroskaþjálfafélag Íslands

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt