Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) hefur ritað Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) kæru vegna skipunar Félagsdóms, sem stéttarfélagið telur að brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Telur FÍN að það fyrirkomulag í íslenskum lögum að Hæstiréttur tilnefni meirihluta dómara Félagsdóms feli í sér brot á reglu mannréttindasáttmálans sem ætlað er að tryggja sjálfstæðan, óháðan og óvilhallan dómstól.
Kæran byggist á því að FÍN og félagsmaður þess hafi í dómsmáli, sem rekið var fyrir Félagsdómi nýverið, ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir dómstólnum, líkt og lögfest er með mannréttindasáttmála Evrópu. Dómsmálið háði FÍN gegn íslenska ríkinu.
Telur FÍN að brotalamir á réttlátri málsmeðferð hafi falist í að Félagsdómur sé ekki sjálfstæður, óháður og óvilhallur dómstóll í skilningi sáttmálans. Bent er á að samkvæmt lögum séu þrír af fimm dómurum Félagsdóms skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, en engin sérstök lagaákvæði gildi um fyrirkomulag tilnefninga, ólíkt því sem gildir um skipanir dómara við aðra dómstóla. Tilnefningaferlið sé því algjörlega ógagnsætt.
Vísað er til þess í kærunni að GRECO, alþjóðleg spillingarnefnd, hafi haft uppi efasemdir um skipunarferlið í skýrslu sem gefin var út í mars árið 2013. Tilteknir dómar og úrskurðir Félagsdóms sæti kæru til Hæstaréttar dragi öll afskipti Hæstaréttar, bein og óbein, af skipan dómara við Félagsdóm, úr þeirri trú sem almenningur hefur á sjálfstæði Félagsdóms.