Fjórar blákaldar staðreyndir

Kjarasamningar eru á næsta leiti, kröfugerðir hafa verið birtar og kunnuglegir frasar heyrast úr herbúðum stríðandi fylkinga. Málflutningur forystufólks virðist oft helst markast af pólitískri sannfæringu og því markmiði að magna drama og spennu fremur en að ná hagfelldum samningum fljótt. Hagtölur eru oft settar fram þannig að þær gagnist málflutningnum en þó ber á því að þær séu mistúlkaðar, teknar úr samhengi eða staðreyndir látnar í léttu rúmi liggja.

BHM birti fyrr í mánuðinum 15 áherslur aðildarfélaga sinna undir nafninu „Jafnréttissamningurinn 2023“, þar sem byggt er á staðreyndum og hófstillingu. Samhliða því var gefin var út viðamikil skýrsla um virði háskólamenntunar í alþjóðlegum samanburði til að undirbyggja megináherslur bandalagsins í komandi kjarasamningum; prósentuhækkanir og leiðréttingu á skökku virðismati starfa. Markmiðið er að endingu að auka kaupmátt og tryggja áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika. Ekki aðeins fyrir háskólamenntaða heldur alla á íslenskum vinnumarkaði.

Staðreynd: Kaupmáttur sumra hefur aukist allt að sexfalt á við aðra

Meginmarkmið krónutöluhækkana lífskjarasamningsins var að leiðrétta kjör lágtekjuhópa sem höfðu borið hitann og þungann af miklum hagvexti í lágframleiðnigreinum. Að mörgu leyti nauðsynleg og skiljanleg krafa á þeim tíma en nú er enn og aftur krafist krónutöluhækkana. Vafasamar fullyrðingar fylgja um slæma stöðu launafólks á Íslandi og tekjuójöfnuð. Staðreyndin er hins vegar sú að kaupmáttarvegin meðallaun voru með þeim hæstu í heimi á árinu 2021 og hærri en á öðrum Norðurlöndum. Tekjujöfnuður var mestur á Íslandi innan OECD-ríkja fyrir gerð lífskjarasamningsins og síðan þá hefur kaupmáttur láglaunafólks aukist allt að sexfalt á við aðra. Kaupmáttaraukning hjá félagsfólki ASÍ í Reykjavík var til að mynda um 50% á tímabilinu mars 2019 – janúar 2022. Á sama tímabili jókst kaupmáttur sérfræðinga BHM hjá ríkinu um 11% og iðnfélaga ASÍ á almennum markaði um 8%. Fyrirséð er að sú kaupmáttaraukning muni jafnvel þurrkast út á árinu 2022. Ef krónutöluhækkanir verða aftur ráðandi við gerð kjarasamninga gæti það jafngilt kröfu um kaupmáttarrýrnun fyrir stóran hluta launafólks, meðan annars innan BHM og iðnfélaga hjá ASÍ. Vandséð er að stéttarfélög innan þeirra vébanda fái umboð til slíkra afarkosta.

Staðreynd: 40% minni arðsemi af háskólamenntun skapar samfélagsvanda

Einhver hafa stigið fram á síðustu misserum og haft í frammi gífuryrði um stéttastríð, sjálftöku og óhófleg kjör svokallaðs „sérfræðingaveldis“. Staðreyndin er hins vegar sú að það er lítið að hafa upp úr háskólamenntun á Íslandi. Arðsemi háskólamenntunar er um 40% minni hlutfallslega en að meðaltali innan OECD og mun minni en á Norðurlöndum. Sumir sérfræðingar starfa á afslætti fyrir samfélagið og þá sérstaklega í þeim störfum sem hafa enga hliðstæðu á almennum markaði. Tímakaup sérfræðinga á almennum markaði (án stjórnenda) er til dæmis um 50% hærra að meðaltali en tímakaup sérfræðinga hjá sveitarfélögum. Því hærra sem hlutfall kvenna er í sérfræðistörfum því lægra er tímakaupið. Lág arðsemi háskólamenntunar gæti verið ein skýring þess að menntunarstig þjóðarinnar er mun lægra en hjá öðrum auðugum þjóðum og ungt fólk sækir háskólanám í minni mæli en jafnaldrar þeirra á Vesturlöndum. Sérstaklega hallar þar á karla. Að óbreyttu mun vanmat á menntun skapa samfélagsvanda á Íslandi. Það er ekki bara vandamál BHM.

Staðreynd: Það er svigrúm til launahækkana

Árið 2010 sagði Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, ekkert svigrúm vera til launahækkana. Að teknu tilliti til efnahagslegrar óvissu og bágrar stöðu hagkerfisins á þeim tíma var sú afstaða að mörgu leyti skiljanleg en annað átti við næstu árin. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt 2010-2019 sögðu forsvarsmenn atvinnulífs og ráðamenn nær ekkert svigrúm vera til launahækkana allan áratuginn. Staðreyndin er hins vegar að á þeim árum var samanlagður hagvöxtur á almennum markaði um 44% og raunlaun hefðu getað hækkað til jafns án þess að hafa teljanleg áhrif á verðlag eða stöðugleika. Í raun hækkuðu laun meira en svo á áratugnum en miklar launahækkanir í samanburði við önnur lönd voru knúnar áfram af leiðréttingu raunlauna eftir hrunið, kröftugum hagvexti og viðskiptakjarabata. Fátt bendir til þess að launahækkanir hafi verið ósjálfbærar eða verðbólguvaldandi. Nú á árinu 2022 hafa forsvarsmenn atvinnulífs enn og aftur stigið fram og fullyrt að svigrúmið sé nær ekkert og að launahækkanir gætu orðið hagkerfinu skaðlegar. Það er rangt. Framleiðni hefur hækkað meira en laun á almenna markaðnum frá 2019 að meðaltali og staða og afkoma útflutningsatvinnuvega er betri en hún hefur verið um árabil. Margar atvinnugreinar geta borið töluverðar launahækkanir í komandi kjarasamningum án þess að þurfa að velta þeim út í verðlag. Hins vegar hafa mörg fyrirtæki nýtt tækifærið til að hækka verð í krafti fákeppninnar sem einkennir íslenskt hagkerfi. Við þurfum líka að tala um þau kjör sem fyrirtæki skammta sér í krafti hærri álagningar og fákeppni. Fyrirtækin bera líka ábyrgð.

Staðreynd: Ákallið frá almenningi er skýrt og hreyfingin verður að hlusta

Í nýlegri könnun sem framkvæmd var af Maskínu fyrir BHM kemur í ljós að ímynd verkalýðshreyfingarinnar er almennt jákvæðari en ímynd Samtaka atvinnulífsins. Samt er það svo að einungis um fjórðungur aðspurðra telja verkalýðshreyfinguna sýna mikla ábyrgð í umfjöllun um efnahagsmál og efnahagssamhengi. Stöðugt efnahagsumhverfi virðist efst í huga launafólks en um 40% segja hreyfinguna eiga að leggja mesta áherslu á stöðugt efnahagsumhverfi í næstu kjarasamningum samanborið við um 25% sem segja nafnlaunahækkanir meginmarkmiðið. Áherslan skal vera á kaupmáttaraukningu og varðveislu efnahagslegs stöðugleika. Við sem förum fyrir heildarsamtökum launafólks verðum að hlusta.

Verkefnið fram undan er því að vinna að kjarasamningum sem auka kaupmátt ráðstöfunartekna, leiðrétta skakkt verðmætamat starfa á opinberum markaði og tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Þannig stuðlum við að sátt á íslenskum vinnumarkaði og vinnum gegn verðbólgu og frekari vaxtahækkunum. Þannig verjum við betri lífskjör og höldum áfram í sókn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt