Í fyrsta fasa hagrannsóknarinnar er fjallað um mun á atvinnutekjum samskattaðra eftir kynhneigð en þeirri aðferð var nýlega beitt í Danmörku við samskonar rannsókn. Samkvæmt þessu var þó nokkur munur á meðaltali atvinnutekna samkynhneigðra og gagnkynhneigðra á Íslandi á árinu 2019. Þannig voru hommar t.a.m. með um þriðjungi lægri atvinnutekjur að meðaltali en gagnkynhneigðir karlmenn á því ári. Hommar eru jafnframt mun líklegri til að vinna í þjónustustörfum en gagnkynhneigðir karlmenn eða í þeim störfum sem oft hafa verið kölluð „kvennastörf“ en þau störf hafa verið kerfisbundin vanmetin á vinnumarkaði á Vesturlöndum um árabil. Kynhneigðarbundinn munur í atvinnutekjum homma og gagnkynhneigðra karlmanna vekur sérstaka athygli í ljósi þess að menntastig meðal homma er mun hærra en meðal gagnkynhneigðra karla. Atvinnutekjur lesbía voru hins vegar um 13% meiri að meðaltali á árinu 2019 en atvinnutekjur gagnkynhneigðra kvenna. Í skýrslunni sem kemur út á haustdögum verður leitast við að skýra þennan mun í atvinnutekjum frekar og einnig fjalla um stöðu þeirra sem falla utan samskattaða hópsins. Mun skýrslan þá einnig fjalla um stöðu transfólks á vinnumarkaði. Það hefur ekki verið gert á Vesturlöndum svo neinu nemur og er mikilvægt framlag til vinnumarkaðsrannsókna.
Stærsta könnun sem framkvæmd hefur verið á hinsegin vinnumarkaði
Auk greiningar á atvinnutekjum var gerð könnun meðal hinsegin einstaklinga og svöruðu 850 einstaklingar spurningum um hinsegin vinnumarkað. Niðurstöðurnar benda m.a. til að transfólk búi við minna atvinnuröyggi en annað hinsegin fólk en um 70% transfólks í könnuninni sögðust hafa upplifað atvinnuleysi á sinni ævi samanborið við um 40% þeirra sem hafa sís-kynvitund. Við getum þó glaðst yfir því að hinsegin fólk á Íslandi er mun bjartsýnna fyrir hönd hinsegin fólks á Íslandi en hinsegin fólks á heimsvísu en um 90% aðspurðra segjast vera bjartsýn fyrir hönd hinsegin fólks á Íslandi til framtíðar en aðeins um 20% sögðust bjartsýn fyrir hönd hinsegin fólks á heimsvísu. Ljóst er að stjórnvöld þurfa að líta í eigin barm hvað varðar stefnumótun í málefnum hinsegin fólks en aðeins um helmingur aðspurðra sagðist vera ánægð/t/ur með stefnu stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks og aðeins um 20% transfólks!
Dagur gleði, samstöðu og jafnréttis
Ráðist er að ýmsum hópum hinsegin fólks um heim allan. Árásirnar koma jafnt frá fólki í valdastöðum sem og almenningi og stjórnmálin bregðast oft seint og illa við. Ísland er því miður engin undantekning eins og atburðir júlímánaðar bera vitni um. Það er óásættanlegt. Okkur sem gegna ábyrgðarhlutverki í samfélaginu, hvort sem á vettvangi vinnumarkaðar eða stjórnvalda ber skylda til að hrinda slíkum árásum af fullum krafti. Aukið samstarf við Samtökin ´78 og hinsegin samfélagið, þar sem greiningar og rannsóknir eru í forgrunni eru fyrsta lóð verkalýðshreyfingarinnar á þær vogarskálar. Með það í huga hvetjum við félaga okkar, vinnandi fólk og almenning allan til að taka þátt í gleðigöngunni í dag og sýna þannig stuðning sinn við mannréttindabaráttu hinsegin fólks og fagna fjölbreyttu samfélagi.
Til hamingju með daginn
Sonja, Friðrik og Drífa