Uppræta þarf mismunun í garð sjálfstætt starfandi 

Nýlegur dómur Evrópudómstólsins varpar ljósi á að reglur um bann við mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli kyns, þjóðernis, kynhneigðar eða annarra þátta ná ekki aðeins til launafólks heldur einnig sjálfstætt starfandi.

Dómurinn taldi ótækt að áralöngu viðskiptasambandi við sjálfstætt starfandi einstakling hefði skyndilega verið hætt eftir að hann birti myndband af sér og sambýlismanni sínum í nafni umburðarlyndis gagnvart samkynhneigðum.

Reglur um bann við mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli kyns, þjóðernis, kynhneigðar eða annarra þátta gilda ekki aðeins um launafólk heldur geta þær einnig átt við um réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þá niðurstöðu má lesa úr nýlegum dómi Evrópudómstólsins um mál einstaklings sem vegna kynhneigðar sinnar þurfti að sæta riftun á samningi um þjónustu sem hann hafði veitt fyrirtæki um árabil.

Samkvæmt dóminum ætti ákvörðun um gerð eða endurnýjun samnings við sjálfstætt starfandi einstakling að njóta verndar samkvæmt evrópureglum um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar. Ákvæði landsréttar um frelsi til samningsgerðar gangi ekki framar slíkum reglum.

Að mati BHM þarf að skýra gildissvið og orðalag í innlendri löggjöf, þ.m.t. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, svo tryggja megi sambærilega réttarvernd einyrkja hér á landi. Í því efni má einnig horfa til alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist á sviði félagslegra réttinda og 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.

Hættu viðskiptum við mann eftir myndbandsbirtingu til stuðnings samkynhneigðum

Í málinu sem um ræðir voru málsatvik þau að á árunum 2010 til 2017 (tilskipun 2000/78/EB) vann sjálfstætt starfandi einstaklingur hljóð- og myndefni fyrir pólska ríkissjónvarpið (TP). Var samstarf aðila byggt á röð samninga sem gerðir voru á umræddu tímabili um veitingu þessarar þjónustu. Í desember 2017 birti umræddur einstaklingur og sambýlismaður hans tónlistarmyndband á YouTube í nafni umburðarlyndis fyrir samkynhneigðum pörum. Skömmu eftir birtingu myndbandsins sleit TP öllum frekari viðskiptum við hann.

Í málinu var tekist á um hvort að reglur Evrópusambandsins frá árinu 2000 um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi (tilskipun 200/78/EB), þar með talið á grundvelli trúar eða kynhneigðar, gildi um samninga um þjónustu við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Pólska ríkið leit svo að almennar reglur um frelsi til samningsgerðar hefðu hér forgang. Evrópudómstóllinn féllst ekki á þau rök.

Í fyrsta lagi sagði dómstóllinn að tilskipunin gildi um þau skilyrði sem sett eru fyrir aðgengi fólks að sérhverri atvinnustarfsemi. Samningar um vinnuframlag við sjálfstætt starfandi einstaklinga njóti því verndar samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar ekki síður en samningar við almennt launafólk.

Þá bendir dómurinn á að slit á samningi um veitingu þjónustu geti jafnast á við uppsögn á ráðningarsamningi launamanns í hefðbundnu vinnusambandi. Dómstóllinn komst því að þeirri niðurstöðu að ákvæði í pólskri löggjöf um frelsi til samningsgerðar verði að víkja við þessar aðstæður ef beiting slíkra reglna leiðir til mismununar í andstöðu við ákvæði tilskipunarinnar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt