Haltu í réttindin

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, skrifar um atvinnumissi.

Atvinnumissir er mikið áfall. Mikilvægt er að fólk sem lendir í slíkum hremmingum geti treyst á stuðning samfélagsins. Í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur atvinnuleysi rokið upp, einkum meðal fólks sem starfar í ferðaþjónustu. Þá hafa þúsundir lent í því að starfshlutfall þeirra hefur verið minnkað. Á þessum erfiðu tímum kemur það í hlut hins opinbera að tryggja þeim framfærslu sem misst hafa vinnuna eða þurfa að sætta sig við skert starfshlutfall. Hér gegna Vinnumálastofnun og Atvinnuleysistryggingasjóður lykilhlutverki.

Stéttarfélög eru hluti af því samfélagslega öryggisneti sem grípur fólk þegar það missir vinnuna. Félögin veita félagsmönnum sínum margvíslega aðstoð og ráðgjöf er varðar kjara- og réttindamál. Ef félagsmaður telur t.d. að ekki hafi verið rétt staðið að uppsögn getur hann eða hún leitað aðstoðar stéttarfélags síns sem fylgir þá málum eftir gagnvart atvinnurekanda. Sama á við ef félagsmaður telur sig eiga inni vangoldin laun. Að auki starfrækja stéttarfélög ýmsa sjóði í þágu félagsmanna sem launagreiðendur fjármagna með sérstökum framlögum samkvæmt kjarasamningum. Félagsmenn geta sótt um styrki úr þessum sjóðum vegna veikinda, til að sækja námskeið eða til að stunda líkamsrækt, svo dæmi séu nefnd.

Innan BHM eru 27 stéttarfélög sem standa vörð um lögbundin og kjarasamningsbundin réttindi félagsmanna sinna og aðstoða þá í samskiptum við atvinnurekendur. Til að eiga þess kost að fá aðstoð stéttarfélags og geta sótt um styrki úr sjóðum þess þarf að greiða félagsgjald mánaðarlega.

Ég vil hvetja alla félagsmenn aðildarfélaga BHM sem eru án atvinnu að huga sérstaklega að þessu. Mikilvægt er að fólk haldi áfram að greiða bæði stéttarfélagsgjald og iðgjald í lífeyrissjóð. Hægt er að láta draga þessi gjöld af atvinnuleysisbótum. Það er nógu slæmt að missa vinnuna svo ekki bætist við missir mikilvægra réttinda.

Fyrst birt: 22.5.2020

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt