Leggja þarf áherslu á allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar

BHM tók þátt í samtali norrænna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um réttlát græn umskipti í Hörpu á föstudag.

Kolbrún í pallborð í Hörpu. Ljósmynd Eyþór Árnason/Norden.org

BHM tók þátt í þríhliða samtali norrænna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um réttlát græn umskipti á fundi sem fram fór í Hörpu 1. desember sl. Þar undirstrikaði Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur ríkti um hugtakanotkun milli aðila vinnumarkaðarins þegar réttlát græn umskipti og sjálfbær þróun væru annars vegar. Fundurinn var lokaviðburðurinn í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Þar hafa réttlát græn umskipti verið í brennidepli með undirmarkmiðum sem snerta velferð, mannréttindi og umhverfisvernd í norrænu samstarfi.

„Ég tel að leggja þurfi áherslu á allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar í samtalinu sem heildarsamtök stéttarfélaga, atvinnurekendur og stjórnvöld þurfa að eiga til þess að hefja sannfærandi vegferð réttlátra grænna umskipta. Við erum gjörn á að nota hugtakið „sjálfbær“ þó einungis sé vísað til einnar stoðar, þ.e. hinnar efnahagslegu, þrátt fyrir að við vitum að vegferðin til sjálfbærrar þróunar gangi út á órjúfanlegt samspil allra þriggja stoðanna, þeirrar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Með meiri nákvæmni í hugtakanotkun og dýpri skilningi á því sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja okkur á herðar, sé ég fyrir mér að okkur muni takast að tryggja réttlát græn umskipti á vinnumarkaði“ sagði Kolbrún á fundinum.

Þátttakendendur í þessu þríhliða samtali voru fulltrúar frá ríkisstjórnum Norðurlandanna, aðilum norrænna atvinnurekenda og heildarsamtökum launafólks á Norðurlöndum. Til grundvallar samtalinu lá sameiginleg viljayfirlýsing þessara aðila, sem lesa má á heimasíður viðburðarins. Í henni er m.a. vísað til samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunar um réttlát umskipti sem samþykkt var fyrr á árinu.

Þar er lögð áhersla á samtal og samráð ríkisstjórna, vinnumarkaðarins og launafólks þegar kemur að réttlátum grænum umskiptum. Lagt er til að aðgerðir í umhverfis- og loftlagsstefnu á landsvísu taki mið af Parísarsamkomulaginu og hugað sé að samþættingu áhersluþátta til að ná fram réttlátum grænum umskiptum. Þá þurfi að stuðla að þróun framleiðsluhátta og skapa starfsumhverfi fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf sem standist viðmið sjálfbærrar þróunar. Alþjóðavinnumálastofnunin leggur einnig mikla áherslu á sí- og endurmenntun starfsfólks sem sé til þess fallin að bregðast við þörfum vinnumarkaðarins við græn umskipti.

Fundarmenn í Hörpu voru sammála um að gagnkvæmur áhugi á málefninu ríkti milli aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndum. Þekkingin væri til staðar og aðgerðir á vinnumarkaði þyrftu nú að beinast að grænum áherslum, skapa þyrfti skilyrði fyrir græn störf og græn umskipti sem standast kröfur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hér má lesa yfirlýsingu fundarins

„Með meiri nákvæmni í hugtakanotkun og dýpri skilningi á því sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja okkur á herðar, sé ég fyrir mér að okkur muni takast að tryggja réttlát græn umskipti á vinnumarkaði,“ segir Kolbrún. Ljósmynd Eyþór Árnason/Norden.org
Horft yfir fund réttlátra grænna umskipta í Norðurljósasal Hörpu. Ljósmynd Eyþór Árnason/Norden.org

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt