Ekki skylda að mæta til trúnaðarlæknis í veikindaforföllum

Landsréttur staðfesti nýverið þá afstöðu sem kom fram í dómi Félagsdóms í desember 2022 um að starfsfólki beri að jafnaði ekki skylda til að mæta til skoðunar hjá túnaðarlækni í veikindaforföllum.

Það er þó ekki útilokað að sú staða komi upp að skoðun trúnaðarlæknis eigi við og því mikilvægt að skoða hvert mál fyrir sig.

Á síðustu mánuðum hafa tveir dómar fallið sem staðfesta þá afstöðu stéttarfélaga að starfsfólki beri að jafnaði ekki að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni heldur ber trúnaðarlækni að ræða við lækni starfsmanns, þ.e. þann sem gefur út vottorð. Þá getur trúnaðarlæknir gefið fyrirmæli um frekari rannsókn(ir) hjá viðeigandi sérfræðingum en framkvæmir þær ekki sjálf(ur).

Í lok árs 2022 komst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að opinberu starfsfólki sé að meginreglu ekki skylt að mæta til viðtals og/eða skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitanda. Þær aðstæður geti verið uppi að slíkt sé nauðsynlegt en það heyri þá til undantekningar. Ekki sé því til dæmis heimilt að skylda allt starfsfólk sem er veikt lengur en ákveðinn fjöldi daga til fundar hjá trúnaðarlækni.

Í dómi Landsréttar í júní 2023 var meðal annars ágreiningur um hvort starfsmanni hafi borið skylda til að sæta skoðun trúnaðarlæknis. Vísaði Landsréttur dóms Félagsdóms og sagði hann hafa fordæmisgildi við úrlausn þessa máls. Sagði Landsréttur að ákvæði kjarasamninga um trúnaðarlækna feli ekki í sér skyldu til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitanda. Var því ekki fallist á þá afstöðu vinnuveitanda að starfsmaður hafi, með því að mæta ekki til skoðunar hjá trúnaðarlækni, brotið gegn kjarasamningsbundnum skyldum sínum.

BHM ber vonir til þess að þessir dómar leiði til betri framkvæmdar í slíkum málum, því enn er býsna algengt að vinnuveitendur ætli starfsfólki að sæta skoðun trúnaðarlæknis hafi tilteknum fjölda veikindadaga verið náð.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt