
Í yfirlýsingunni, sem fulltrúar allra aðildarsambanda NFS hafa undirritað, er áhersla lögð á óumdeilanlegan rétt Grænlendinga til sjálfsákvörðunar og að búa við öryggi, án utanaðkomandi þrýstings, hótana eða pólitískrar íhlutunar.
„Enn á ný hefur ríkisstjórn Trumps viðrað þá ætlun sína að taka yfir stjórn Grænlands. Og enn á ný hefur grænlenska þjóðin staðfest einarðlega vilja sinn til að ráða eigin framtíð – án utanaðkomandi þrýstings eða hótana,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Óásættanleg afskipti af sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga
NFS fordæmir allar tilraunir til að hafa áhrif á stefnu Grænlands með ógnunum, þvingunum eða efnahagslegum og pólitískum þrýstingi. Slík afskipti séu ekki boðleg og fari gegn grundvallarrétti íbúa landsins.
Forseti SIK, Jess Berthelsen, hefur undirstrikað mikilvægi þess að bregðast við utanaðkomandi þrýstingi með nánara samstarfi við Danmörku á grundvelli jafnræðis. Í grein í grænlenska dagblaðinu Sermitsiaq sagði hann:
„Nú verða stjórnmálamenn okkar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja landið og ekki síst íbúana, og það á að gera með enn nánara samstarfi við Danmörku, að sjálfsögðu á grundvelli gagnkvæmrar virðingar.“





