NFS lýsa yfir eindregnum stuðningi við Grænlendinga

Norræn heildarsamtök launafólks (NFS) hefur sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við Landsamband verkalýðsfélaga á Grænlandi (SIK) og grænlensku þjóðina. Tilefnið eru endurteknar yfirlýsingar frá ríkisstjórn Donalds Trumps um að taka yfir stjórn Grænlands og færa landið undir Bandaríkin.

Í yfirlýsingunni, sem fulltrúar allra aðildarsambanda NFS hafa undirritað, er áhersla lögð á óumdeilanlegan rétt Grænlendinga til sjálfsákvörðunar og að búa við öryggi, án utanaðkomandi þrýstings, hótana eða pólitískrar íhlutunar.

„Enn á ný hefur ríkisstjórn Trumps viðrað þá ætlun sína að taka yfir stjórn Grænlands. Og enn á ný hefur grænlenska þjóðin staðfest einarðlega vilja sinn til að ráða eigin framtíð – án utanaðkomandi þrýstings eða hótana,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Óásættanleg afskipti af sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga

NFS fordæmir allar tilraunir til að hafa áhrif á stefnu Grænlands með ógnunum, þvingunum eða efnahagslegum og pólitískum þrýstingi. Slík afskipti séu ekki boðleg og fari gegn grundvallarrétti íbúa landsins.

Forseti SIK, Jess Berthelsen, hefur undirstrikað mikilvægi þess að bregðast við utanaðkomandi þrýstingi með nánara samstarfi við Danmörku á grundvelli jafnræðis. Í grein í grænlenska dagblaðinu Sermitsiaq sagði hann:

„Nú verða stjórnmálamenn okkar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja landið og ekki síst íbúana, og það á að gera með enn nánara samstarfi við Danmörku, að sjálfsögðu á grundvelli gagnkvæmrar virðingar.“

Sterk afstaða grænlensku þjóðarinnar

Vilji grænlensku þjóðarinnar hefur verið skýr og ótvíræður. Fjölmenn mótmæli gegn erlendum afskiptum hafa sýnt almennan stuðning við fullveldi, reisn og lýðræðislegt val grænlensku þjóðarinnar. Afstaða almennings er skýr og afdráttarlaus: samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vilja 85% Grænlendinga áfram vera hluti af danska ríkjasambandinu. Aðeins 6% hafa lýst yfir vilja til að verða hluti af Bandaríkjunum.

NFS bendir á að Grænland sé órjúfanlegur hluti af norrænu samstarfi og að verkalýðshreyfingin í Norðurlöndum muni óhikað standa með Grænlendingum.

„NFS hvikar hvergi í stuðningi sínum við Grænlendinga. Við munum áfram styðja rétt grænlensku þjóðarinnar til að feta sína eigin framtíðarbraut og njóta virðingar sem jafngildir aðilar í alþjóðasamfélaginu,“ segir í yfirlýsingu NFS.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt