Um þetta hefur verið samið í heildarkjarasamningum flestra aðildarfélaga bandalagsins við bæði ríki og sveitarfélög þótt ekki hafi verið samið sérstaklega um íslenskunám.
10. og 12. kafli heildarkjarasamninga fjallar um rétt starfsfólks til símenntunar
Um er að ræða 10. og 12. kafla kjarasamninganna þar sem fjallað er um ávinnslu réttinda til námsleyfis og rétt til að sækja námskeið á vinnutíma, en kaflarnir eru ekki nákvæmlega eins á milli samninga við ríki og sveitarfélög. Í þeim er þó fjallað um símenntunaráætlanir stofnana og starfseininga og starfsþróunaráætlanir. Símenntunaráætlun tekur yfirleitt mið af þörfum bæði stofnunar og starfsfólks en starfsþróunaráætlun einstaklinga tekur einnig mið af þörfum hvers starfsmanns fyrir sig.
Afstaða BHM
Það er afstaða BHM að fyrir starfsfólk af erlendum uppruna hljóti íslenskunám að geta verið hluti af einstaklingsbundinni starfsþróunaráætlun ef viðkomandi starfsmaður telur sig þurfa á íslenskunámi að halda.
Er það og afstaða BHM að vinnumarkaðurinn, bæði stéttarfélög og atvinnurekendur, verði að koma til móts við fólk af erlendum uppruna í þessum efnum og sýna í verki að það er velkomið á íslenskan vinnumarkað með því að stuðla að íslenskunámi þess.
Hvetjum félagsfólk til að kanna rétt sinn og sækja um í sjóði bandalagsins
Að því sögðu hvetur BHM félaga aðildarfélaga sinna til að leita til sinna stéttarfélaga til að kanna betur rétt sinn til að sækja námskeið og efla sig í starfi með því að hafa samband við sitt stéttarfélag.
Jafnframt bendum við félögum á að hægt er að sækja um styrki til tungumálanáms hjá bæði Starfsþróunarsetri háskólamanna og Starfsmenntunarsjóði.