Ráðningarferlar KMR bjóða upp á mismunun

BHM furðar sig á að ráðningarferlar séu ekki bættir til að koma veg fyrir mismunun hjá ríkinu þrátt fyrir ábendingar þess efnis.

Reglulega berast aðildarfélögum BHM ábendingar og fyrirspurnir frá félagsfólki sem telur hugsanlegt að gengið hafi verið fram hjá starfsumsóknum þeirra hjá hinu opinbera á grundvelli kyns, litarhafts, fötlunar, aldurs eða nafngiftar.

Lögum samkvæmt ber opinberum aðilum að gæta að jafnræði og ráða hæfasta umsækjandann til starfa. Hefur það vinnulag ítrekað verið staðfest af dómstólum og í álitum umboðsmanns Alþingis og byggir m.a. á stjórnsýslulögum, lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Stór hluti ráðninga hjá ríkinu fer hins vegar fram í gegnum Orra (starfsmannakerfi ríkisins) þar sem umsækjandi þarf að tilgreina nafn, kyn, aldur og fleiri þætti sem ekki er útilokað að hafi áhrif á meðvitaða eða ómeðvitaða fordóma.

BHM sendi KMR fyrirspurn og ábendingu

Í ljósi þessa sendi BHM fyrirspurn til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins í byrjun árs 2022 og óskaði eftir upplýsingum um með hvaða hætti væri komið í veg fyrir mismunun vegna ómeðvitaðra fordóma í ráðningarferlum ríkisins.

Var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um hvort tryggt væri í ráðningarferlum að þau sem hafi umsjón með ráðningum sjái að minnsta kosti í fyrsta úrtaki ekki nafn, mynd, aldur, kyn eða viðlíka þætti sem geta haft áhrif á mat á umsóknum.

Svar barst strax í kjölfar fyrirspurnarinnar þar sem KMR þakkaði fyrir ábendinguna og sagðist koma henni á framfæri við þau sem hafa umsjón með ráðningakerfi ríkisins og skoða hvaða leiðir væru færar.

Nafn, kyn, aldur og mynd enn sýnileg

Í júní sendi BHM aftur bréf til KMR með vísun í fyrra erindi og spurði hvort ráðningarferlar ríkisins hefðu verið endurskoðaðir með það fyrir augum að koma í veg fyrir mismunun.

Svar barst þar sem BHM var tjáð að ábendingum hefði verið komið á framfæri við þau sem hafa umsjón með ráðningakerfi ríkisins en að staðan væri óbreytt. Nafn, kyn, aldur og mynd hjá umsækjendum birtist þeim sem taka við umsóknum. Möguleikar á að betrumbæta ferlið yrðu teknir til sérstakrar umfjöllunar við næstu uppfærslu á kerfinu, sem yrði vonandi ráðist í innan tíðar.

Ekki er að sjá að kerfið hafi enn verið uppfært né nokkrar lagfæringar verið gerðar og því staðan enn óbreytt, ellefu mánuðum síðar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt