Lögum samkvæmt ber opinberum aðilum að gæta að jafnræði og ráða hæfasta umsækjandann til starfa. Hefur það vinnulag ítrekað verið staðfest af dómstólum og í álitum umboðsmanns Alþingis og byggir m.a. á stjórnsýslulögum, lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Stór hluti ráðninga hjá ríkinu fer hins vegar fram í gegnum Orra (starfsmannakerfi ríkisins) þar sem umsækjandi þarf að tilgreina nafn, kyn, aldur og fleiri þætti sem ekki er útilokað að hafi áhrif á meðvitaða eða ómeðvitaða fordóma.
BHM sendi KMR fyrirspurn og ábendingu
Í ljósi þessa sendi BHM fyrirspurn til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins í byrjun árs 2022 og óskaði eftir upplýsingum um með hvaða hætti væri komið í veg fyrir mismunun vegna ómeðvitaðra fordóma í ráðningarferlum ríkisins.
Var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um hvort tryggt væri í ráðningarferlum að þau sem hafi umsjón með ráðningum sjái að minnsta kosti í fyrsta úrtaki ekki nafn, mynd, aldur, kyn eða viðlíka þætti sem geta haft áhrif á mat á umsóknum.
Svar barst strax í kjölfar fyrirspurnarinnar þar sem KMR þakkaði fyrir ábendinguna og sagðist koma henni á framfæri við þau sem hafa umsjón með ráðningakerfi ríkisins og skoða hvaða leiðir væru færar.
Nafn, kyn, aldur og mynd enn sýnileg
Í júní sendi BHM aftur bréf til KMR með vísun í fyrra erindi og spurði hvort ráðningarferlar ríkisins hefðu verið endurskoðaðir með það fyrir augum að koma í veg fyrir mismunun.
Svar barst þar sem BHM var tjáð að ábendingum hefði verið komið á framfæri við þau sem hafa umsjón með ráðningakerfi ríkisins en að staðan væri óbreytt. Nafn, kyn, aldur og mynd hjá umsækjendum birtist þeim sem taka við umsóknum. Möguleikar á að betrumbæta ferlið yrðu teknir til sérstakrar umfjöllunar við næstu uppfærslu á kerfinu, sem yrði vonandi ráðist í innan tíðar.
Ekki er að sjá að kerfið hafi enn verið uppfært né nokkrar lagfæringar verið gerðar og því staðan enn óbreytt, ellefu mánuðum síðar.