Satt og logið um opinbert starfsfólk

Umræða um störf og kjör opinbers starfsfólks hefur verið áberandi undanfarið. BHM hefur tekið saman sjö staðreyndir um málið.

Ýmsum staðhæfingum hefur verið fleygt fram í opinberri umræðu um fjölda opinbers starfsfólks, hátt launastig í störfum þeirra og skorti á verðmætasköpun á opinberum markaði. Í þessari umræðu er í flestum tilfellum farið rangt með hagtölur eða þær beinlínis vísvitandi settar fram með villandi hætti. Hér að neðan getur þú kynnt þér staðreyndir um opinbera markaðinn.

1. Er opinberi markaðurinn stærri en áður?

Nei, ekkert bendir til þess. Opinbert starfsfólk er nú 31% af heildarfjölda starfandi fólks á Íslandi sem er í takt við langtímameðaltalið og það sem vænta má miðað við stöðu hagsveiflunnar. Hlutfallið hefur rokkað frá 27-33% síðustu þrjá áratugi og minnkar í uppsveiflu en eykst í niðursveiflu.

2. Hvað með fréttir um óhóflega fjölgun opinberra starfsmanna?

Í skýrslunni „Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?“ var notast við áætlun úr vinnumarkaðsrannsókn fyrir árin 2015-2021. Vinnumarkaðsrannsóknin er ekki góður mælikvarði á fjölda opinbers starfsfólks en opinbert rekstrarform ræður ekki niðurstöðunni heldur spurningakönnun. Lokaárið 2021 er einnig villandi í þessum samanburði en atvinnuleysi var í sögulegum hæðum á því ári.

Kröftugur viðsnúningur varð á almennum markaði á árinu 2022 og hlutfallsleg stækkun opinbera vinnumarkaðarins á tíma heimsfaraldurs gekk þá til baka að mestu. Sé miðað við opinbert rekstrarform eingöngu og lokaárið 2022 kemur í ljós að fjöldi starfandi á almennum vinnumarkaði jókst um 22% á tímabilinu 2015-2022 en fjöldi starfandi hjá opinberum stofnunum jókst um 15%. Fjöldi starfandi hjá opinberum fyrirtækjum jókst nánast ekkert á tímabilinu.

Ekkert bendir til að opinberu starfsfólki hafi fjölgað óhóflega á þessum tíma.

3. Vantar eða skortir opinbert starfsfólk?

Það fer eftir því hvernig horft er á málið. Á árunum 2011-2021 jókst fjöldi starfandi í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu nokkurn veginn í takt í íbúafjölgun. Skortur hefur hins vegar myndast í heilbrigðisþjónustu og umönnunargreinum en fjöldi starfandi starfandi í heilbrigðisþjónustu jókst um 29% á tímabilinu og um 35% í umönnunargreinum. Á sama tíma hefur fjöldi íbúa á aldrinum 70-79 ára aukist um nær helming og fjöldi íbúa yfir 90 ára um rúmlega 60%. Fjöldi erlendra ferðamanna hefur einnig margfaldast á tímabilinu með tilheyrandi álagi á heilbrigðisþjónustu. Sterkar vísbendingar eru um að umönnunarkrísa sé í uppsiglingu á Íslandi en hingað til hefur henni verið afstýrt með yfirvinnu og auknu álagi á starfsfólk í vaktavinnu.

4. Hvað er ólíkt með opinberum- og almennum vinnumarkaði?

Markaðirnir eru nokkuð frábrugðnir í eðli sínu. Tæplega 70% starfandi á opinberum markaði eru konur en 37% á almenna markaðnum skv. launarannsókn Hagstofunnar. Tæplega 60% starfandi á opinberum markaði eru með háskólamenntun eða aðra sérhæfða menntun að baki en aðeins 23% á almennum markaði. Opinberi markaðurinn er því kvenlægur og með hátt menntunarstig. Nauðsynlegt er að hafa þennan eðlismun í huga við allan samanburð á kjörum milli markaða.

5. Eru laun á opinberum markaði hærri en á almennum markaði?

Heilt yfir er launamunur hverfandi milli markaða ef horft til meðaltals í heildarlaunum fullvinnandi fólks árið 2021. Hér ber hins vegar að hafa í huga að markaðirnir eru með engu móti sambærilegir, til dæmis þegar kemur að menntunarstigi, og því er slíkur samanburður meðaltals ómarktækur. Meðaltal heildarlauna fullvinnandi er lægra fyrir alla starfsflokka á opinberum markaði en almennum nema í tilfelli ósérhæfðs starfsfólks og iðnaðarmanna. Mestur er munurinn hjá sérfræðingum en meðaltalið er þar tæplega 20% lægra á opinberum markaði. Lægst launuðustu sérfræðingar landsins starfa hjá sveitarfélögunum.

Þær stéttir sérfræðinga sem eingöngu eru á opinberum vinnumarkaði, svokallaðar einkeypisstéttir, búa við meiri launamun en aðrar stéttir. Háskólakennarar eru til dæmis með lægri meðalheildarlaun en allir sérfræðingar á almennum markaði og grunnskólakennarar með rúmlega 30% lægri heildarlaun að meðaltali!

6. Ég vinn hjá hinu opinbera en vinur minn sem er með sömu menntun og færni vinnur á almennum vinnumarkaði. Er vinur minn verðmætari en ég?

Alla jafna er vinur þinn ekki verðmætari fyrir samfélagið en þú. Það eina sem skiptir máli er að samfélagið beini kröftum hvers og eins þangað sem verðmætasköpun og framleiðni er hámörkuð. Í mörgum tilfellum eru opinberir aðilar betur til þess fallnir en einkaaðilar og sérstaklega á þeim mörkuðum þar sem markaðsbrestur leiðir til ónægs framboðs og/eða hárrar verðlagningar. Það er allra hagur að opinberir aðilar séu ráðandi á þeim mörkuðum. Í sumum tilfellum getur líka verið hagfellt að opinberir aðilar úthýsi þjónustu til einkaaðila að því gefnu að nægt eftirlit sé með starfseminni.

7. Af hverju er talað niður til opinbers starfsfólks?

Oft er erfitt að greina hvort um kreddur eða upplýsta hagsmunagæslu sé að ræða hjá hagsmunasamtökum eða stjórnmálafólki. Sumir trúa því einlæglega að einkamarkaður sé þess alltaf umkominn að tryggja jafnt eða aukið framboð á hagkvæmari hátt en opinberir aðilar. Aðrir tala gegn opinbera markaðnum af hræðslu við aukna skattheimtu til lengri tíma samhliða fjölgun opinbers starfsfólks. Enn aðrir stýrast fyrst og fremst af eiginhagsmunasemi t.d. vegna þess að tiltekin fyrirtæki í þeirra baklandi hafa hagsmuni af aukinni einkavæðingu þó að það séu ekki hagsmunir almennings.

Gagnrýni á opinbera markaðinn er skiljanleg og aðhald frá skattgreiðendum er nauðsynlegt. BHM fagnar upplýstri og uppbyggilegri umræðu um opinbera markaðinn og styður alla viðleitni til að auka skynsama hagkvæmni og framleiðni hjá hinu opinbera í samstarfi við stéttarfélögin. Hvetur bandalagið þó atvinnulífið og stjórnmálamenn til að byggja málflutning sinn á staðreyndum og meiri skilningi á hagrænu samhengi markaðanna.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt