Í skýrslunni „Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?“ var notast við áætlun úr vinnumarkaðsrannsókn fyrir árin 2015-2021. Vinnumarkaðsrannsóknin er ekki góður mælikvarði á fjölda opinbers starfsfólks en opinbert rekstrarform ræður ekki niðurstöðunni heldur spurningakönnun. Lokaárið 2021 er einnig villandi í þessum samanburði en atvinnuleysi var í sögulegum hæðum á því ári.
Kröftugur viðsnúningur varð á almennum markaði á árinu 2022 og hlutfallsleg stækkun opinbera vinnumarkaðarins á tíma heimsfaraldurs gekk þá til baka að mestu. Sé miðað við opinbert rekstrarform eingöngu og lokaárið 2022 kemur í ljós að fjöldi starfandi á almennum vinnumarkaði jókst um 22% á tímabilinu 2015-2022 en fjöldi starfandi hjá opinberum stofnunum jókst um 15%. Fjöldi starfandi hjá opinberum fyrirtækjum jókst nánast ekkert á tímabilinu.
Ekkert bendir til að opinberu starfsfólki hafi fjölgað óhóflega á þessum tíma.