Setjum endur­skoðun laga um Mennta­sjóð náms­manna í for­gang

Ímyndum okkur stúdent sem er í háskólanámi, vinnur hlutastarf samhliða námi, á barn eða tvö og reynir að ná endum saman. Námslánið dugar ekki til framfærslu því stúdentinn býr í leiguhúsnæði og því nauðsynlegt að afla aukinna tekna. Afleiðingin er aukið álag og minni tími til að sinna náminu. Markmiðið um að ljúka náminu á tilsettum tíma fjarlægist. Vonin um námsstyrk verður að engu og 9% vextirnir á námslánunum hlaðast upp. Stúdentinn klárar loks námið og heldur verulega skuldsettur út á vinnumarkað.

Tilhlökkunin við hefja starfsferil í draumastarfinu litast af fjárhagsáhyggjum því árlega fara meira en heil mánaðarlaun í að greiða niður námslánin. Mörg þekkjum við vankanta gamla LÍN-kerfisins, en nýja MSNM-kerfið er enn verra.

Þetta er ekki jaðardæmi, heldur raunveruleiki íslenskra háskólanema. Opinbera námslánakerfinu er ætlað að jafna tækifæri til náms og vera fjárfesting í framtíðarþekkingu þjóðarinnar. Það er hins vegar ekki raunin því ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna vinna gegn þessum markmiðum. Þó gagnlegar breytingar hafi verið gerðar á lögunum á síðasta haustþingi er brýnt að stíga skrefið til fulls og ljúka vinnunni við heildarendurskoðun þeirra.

Kerfi sem á að vera fjárfesting, en er orðið byrði

Í lögum um Menntasjóð námsmanna frá 2020 er sjóðurinn skilgreindur sem félagslegur jöfnunarsjóður. Hugmyndin er einföld og markmiðið göfugt; allir sem hafa getu til þurfa að eiga þess kost að stunda háskólanám óháð efnahag. En í reynd er kerfið orðið þannig að of margir stúdentar upplifa það ekki sem stuðning, heldur sem hindrun.

Þegar lán duga ekki til framfærslu neyðast stúdentar til að vinna meira. Þegar þeir vinna meira hafa þeir minni tíma og orku til að stunda námið. Námstíminn lengist og niðurfelling í lok náms (sem á að vera hvati til að klára námið fyrr) gengur ekki eftir. Námslánafyrirkomulagið verður því ekki hvati til að klára nám á réttum tíma, heldur vítahringur. Þess vegna hafa LÍS og BHM ráðist í rannsókn á afleiðingum námslánakerfisins frá 2020 og munu kunngjöra niðurstöður á vormánuðum. Ljóst er að sú vinna mun nýtast við endurbætur á kerfinu.

Samanburður við Evrópu og mikilvægi sveigjanleika

Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir ákveðinni hugmynd um „hefðbundinn“ stúdent: Ungur, barnlaus, heilsuhraustur, í fullu námi, með sveigjanlegan tíma og litla aðra ábyrgð en að stunda námið. En raunveruleiki íslenskra stúdenta er allt annar. Skoðum samanburð við stúdenta í Evrópu; þriðjungur íslenskra stúdenta eru foreldrar í námi, sem er hæsta hlutfall í Evrópu, þeir vinna mest allra, taka lengri námshlé og meðalaldur þeirra er sá hæsti í Evrópu.

Félagslegur jöfnunarsjóður þarf að taka mið af þessum staðreyndum og koma til móts við þær. Besta leiðin til þess er aukinn sveigjanleiki í kerfinu. Nú þurfa stúdentar að vera í að minnsta kosti 75% námi til að uppfylla skilyrði fyrir námslánum. Það þarf lítið út af að bregða (veikindi, álag vegna vinnu, veikindi barns) til að fólk missi réttinn til náms. Því bitna ósveigjanlegar reglur kerfisins misjafnlega á fólki. Sumir hópar þurfa meiri sveigjanleika en aðrir, t.d. foreldrar í námi, fólk með fötlun og stúdentar með aðrar sértækar þarfir. Stuðningur við stúdenta í þeirri stöðu gæti falist í undanþágum frá stífum kröfum um námsframvindu, auknu aðgengi fatlaðs fólks að námslánum og úrræðum sem taka mið af raunverulegum aðstæðum.

Hvað þarf að breytast?

Ef námslánakerfið á að vera raunveruleg fjárfesting í framtíðarþekkingu þjóðarinnar, þarf það að uppfylla hlutverk sitt sem jöfnunartæki. Til að svo megi verða hafa BHM og LÍS lagt áherslu á tilteknar breytingar á lagaumhverfinu, sem mikilvægt er að verði skoðaðar á vettvangi stjórnvalda.

Draga úr skuldabyrði

  • Lægra vaxtastig en nú er, verðtryggð námslán bera allt að 4% vexti, óverðtryggð allt að 9%.
  • Afnám 0,8% vaxtaálags fyrir lántakendur vegna vanskilakostnaðar.

Auka raunverulegan stuðning

  • Hærra hlutfall námsstyrkja.
  • Betri stuðning við foreldra í námi.

Auka sveigjanleika og sanngirni

  • Lán fyrir skráðum einingum með skilyrðum.
  • Rýmri reglur um námsframvindu og lánshæfi fólks í a.m.k. 50% námi.
  • Framfærsla sem fylgir verðlagsbreytingum og húsnæðiskostnaði.

Fjárfestum í framtíðinni

Til þess að hvetja fólk til að sækja sér menntun og komast fyrr út í atvinnulífið með eftirsóknarverða fagþekkingu þarf að vera til staðar stuðningur sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta. LÍS og BHM eru tilbúin til samstarfs við stjórnvöld um lagfæringar á námslánakerfinu og hafa þegar lagt fram tillögur með það að markmiði að fullbúið frumvarp verði lagt fyrir Alþingi í upphafi haustþings 2026. Við höfum ríka ástæðu til að ætla að þetta sé í samræmi við vilja ráðherra háskólamála. Framtíðarlífsgæði þjóðarinnar eru undir.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt