Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir ákveðinni hugmynd um „hefðbundinn“ stúdent: Ungur, barnlaus, heilsuhraustur, í fullu námi, með sveigjanlegan tíma og litla aðra ábyrgð en að stunda námið. En raunveruleiki íslenskra stúdenta er allt annar. Skoðum samanburð við stúdenta í Evrópu; þriðjungur íslenskra stúdenta eru foreldrar í námi, sem er hæsta hlutfall í Evrópu, þeir vinna mest allra, taka lengri námshlé og meðalaldur þeirra er sá hæsti í Evrópu.
Félagslegur jöfnunarsjóður þarf að taka mið af þessum staðreyndum og koma til móts við þær. Besta leiðin til þess er aukinn sveigjanleiki í kerfinu. Nú þurfa stúdentar að vera í að minnsta kosti 75% námi til að uppfylla skilyrði fyrir námslánum. Það þarf lítið út af að bregða (veikindi, álag vegna vinnu, veikindi barns) til að fólk missi réttinn til náms. Því bitna ósveigjanlegar reglur kerfisins misjafnlega á fólki. Sumir hópar þurfa meiri sveigjanleika en aðrir, t.d. foreldrar í námi, fólk með fötlun og stúdentar með aðrar sértækar þarfir. Stuðningur við stúdenta í þeirri stöðu gæti falist í undanþágum frá stífum kröfum um námsframvindu, auknu aðgengi fatlaðs fólks að námslánum og úrræðum sem taka mið af raunverulegum aðstæðum.
Hvað þarf að breytast?
Ef námslánakerfið á að vera raunveruleg fjárfesting í framtíðarþekkingu þjóðarinnar, þarf það að uppfylla hlutverk sitt sem jöfnunartæki. Til að svo megi verða hafa BHM og LÍS lagt áherslu á tilteknar breytingar á lagaumhverfinu, sem mikilvægt er að verði skoðaðar á vettvangi stjórnvalda.
Draga úr skuldabyrði
- Lægra vaxtastig en nú er, verðtryggð námslán bera allt að 4% vexti, óverðtryggð allt að 9%.
- Afnám 0,8% vaxtaálags fyrir lántakendur vegna vanskilakostnaðar.
Auka raunverulegan stuðning
- Hærra hlutfall námsstyrkja.
- Betri stuðning við foreldra í námi.
Auka sveigjanleika og sanngirni
- Lán fyrir skráðum einingum með skilyrðum.
- Rýmri reglur um námsframvindu og lánshæfi fólks í a.m.k. 50% námi.
- Framfærsla sem fylgir verðlagsbreytingum og húsnæðiskostnaði.