Úkraína, alþjóðakreppa og Ísland

Úkraína, alþjóðakreppa og Ísland

Styrjöld í kjölfar heimsfaraldurs var ekki það sem veröldin þurfti á að halda. Hvorki frá sjónarhóli mannúðar né efnahags. Áhrif endurinnrásar Rússlands í Úkraínu verða sífellt ljósari, á sama tíma og ákveðinn doði virðist færast yfir athygli okkar á daglegum framgangi stríðsins. Mannfall, hörmungar og eyðilegging eru daglegt brauð. Árangur árásaraðilans er takmarkaður en seiglast þó áfram í krafti virðingarleysis fyrir mannslífum og eigum. Yfirtaka skal takast, jafnvel þó það verði á viðbrenndri auðn.

Alþjóðavæðingin endurmetin

Mörg gerðum við okkur ekki grein fyrir mikilvægi Úkraínu í því að brauðfæða veröldina. Að þar væru að auki framleiddir íhlutir fyrir bifreiðaframleiðslu og fram færi mikilvæg hráefnavinnsla, sem aftur væri nýtt til lykilframleiðslu annars staðar í veröldinni. Sama á við um Rússland, en þegar stríðrekstur og viðskiptabann fara saman verða keðjuverkandi áhrif á aðfangakeðjur um alla heimsbyggðina.

Árásarstríð Rússlands hefur nú staðið í næstum fjóra mánuði og lok þess ekki fyrirsjáanleg. Lítil ástæða er til bjartsýni. Áhrif á aðfangakeðjur, hráefnisverð og verðbólgu eru tilfinnanleg og skortur er farinn að gera vart við sig á ýmsum nauðsynjavörum. Afleidd hungursneyð í þróunarríkjum er því miður fyrirséð. Heimskreppa gæti verið yfirvofandi, eða a.m.k. tilfinnanlegur samdráttur hagvaxtar. Töpuð tækifæri og brostnar vonir alls staðar.

Á móti þessu vegur aðlögunarhæfni manns og markaðar. Bæði stríð og heimsfaraldur hafa haft þau áhrif að mörg fyrirtæki á Vesturlöndum endurmeta nú hversu háð þau vilja vera aðföngum og undirframleiðslu á fjarlægum mörkuðum, þar sem erfitt er að treysta á stjórnmálalegan og efnahagslegan stöðugleika. Einnig hvort verjandi sé að vera of háð sambandi við lönd þar sem mannréttindi og lýðræði eru virt að vettugi. Alþjóðavæðing undanfarinna áratuga, sem leitt hefur af sér verulegt hagræði, er þannig komin undir mæliker.

Jákvæð áhrif á efnahag, en óvissan mikil

Sem betur fer stendur Ísland um margt vel að vígi við þessar aðstæður vegna sjálfstæðis í orkuöflun og takmarkaðra viðskiptatengsla við Rússland, Hvíta-Rússland og Úkraínu. Sem fyrr virðist stríð á fjarlægri strönd hafa jákvæð áhrif á okkar helstu útflutningsatvinnugreinar m.a. vegna þess mikla viðskiptakjarabata sem uppsveifla hráefnisverðs á erlendum mörkuðum hefur skilað fyrir sjávarafurðir okkar og iðnvarning. Ferðaþjónustan blómstrar nú sem aldrei fyrr, enda ímynd þess að vera talið eitt öruggasta og friðsælasta ríki heims sterk söluvara í viðsjárverðum heimi. Samhliða því má búast við að þrátt fyrir viðvarandi átök muni alþjóðamarkaðir leita í átt að ákveðnu jafnvægi.

Alþjóðlega sjást merki þess að húsnæðisverðbólga sé í rénum, en ofris fasteignamarkaðar hefur langt í frá verið sér-íslenskt fyrirbæri. Olíu- og gasverð er enn hátt, en af þeim mörkuðum gæti verið tíðinda að vænta, sérstaklega ef heimsókn Bandaríkjaforseta til Sádí-Arabíu, og hins hviklynda krónprins þar, ber árangur. Óvissa um efnahagshorfur hér á landi er engu að síður veruleg og útkoman ræðst af framvindu mála á alþjóðavísu. Sögulega séð hefur Ísland verið eins og lauf í vindi þegar kemur að efnahagsþróun á heimsvísu, en á móti vegur að staða þjóðarbúsins er mun sterkari en áður.

Stöðugleikinn er vandasamt verkefni

Að tryggja stöðugleika í þeim stormi sem nú geisar er vandasamt verkefni og krefst mikils af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðar. Þó eru ýmsir möguleikar til þess að halda áfram veginn m.a. hvað varðar ýmsar umbætur. Við getum prísað okkur sæl að vera komin jafn langt á veg og raun ber vitni í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. En betur má ef duga skal. Full ástæða er til að gera enn betur í orkuskiptum og ekki má sjá ofsjónum yfir meintu tekjutapi ríkisins tengt rafvæðingu bílaflotans. Þar vegur á móti framlag til loftslagsmála og minni þörf á innfluttu eldsneyti. Hnykkjum frekar á og gerum betur. Skattheimtu má aðlaga og horfa til annarra þátta.

Á móti kemur að tengt breyttri heimsmynd má gera ráð fyrir auknum útgjöldum til öryggis- og varnarmála. Það er fyrirsjáanlegt en stjórnvöld hafa þar litlu deilt með þingi og þjóð hvað gæti verið í farvatninu. Um það þarf opna umræðu og gagnsæi. Við eigum einnig að sýna stuðning í verki við Úkraínu eftir bestu getu, ásamt því að sýna áfram rausn í þróunaraðstoð. Okkur ber einfaldlega skylda til þess.

Þó sumarið hér á norðurslóðum hafi farið vel af stað og veðrið leikið við okkur þurfum við að nýta það vel til undirbúnings fyrir þær áskoranir sem við stöndum þegar frammi fyrir. Margt af því mun hafa bein áhrif á kjaraviðræður vetrarins. Þar væri forsjá án efa betra en kapp. Að koma í veg fyrir átök á vinnumarkaði sem erfitt verður að vinda ofan af ætti að vera okkur öllum megin markmið. Til þess að svo megi verða þurfum við öll að leggja okkur fram, framverðir verkalýðshreyfingar, fulltrúar atvinnurekenda og stjórnvöld.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt