Vandræðalega spennt

Sameiginleg grein formanns BHM og formanns Samtakana ´78 í Fréttablaðinu 6. ágúst

Umræðan um mismunun á grundvelli þess kyns sem okkur er úthlutað við fæðingu hefur verið fyrirferðamikil í þjóðfélagsumræðunni síðasta áratug. Nokkuð hefur þokast í jafnréttisátt í þeim efnum en skv. jafnréttisvísitölu World Economic Forum trónir Ísland þar enn og aftur á toppnum. Lítið hefur hins vegar farið fyrir greiningum á mismunun vegna kynhneigðar og/eða kynvitundar á vinnumarkaði. Það er miður enda líklegt að sú mismunun sé töluverð. Í ljósi þessa ákváðu Samtökin ‘78 og BHM að efna til samstarfs um greiningar og rannsóknir á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði í janúar síðastliðnum. Þau sem komið hafa að verkefninu, m.a. undirritaðir, hafa talað um það sín á milli hversu „vandræðalega spennt“ þau séu fyrir verkefninu enda er um frumkvöðlastarf að ræða. Í dag, á sameiginlegum viðburði Samtakanna ‘78, ASÍ, BHM og BSRB á hinsegin dögum, verða fyrstu niðurstöður samstarfsins kynntar. Á haustdögum verður svo gefin út út skýrsla í nafni ASÍ, BHM og BSRB: „Staða hinsegin fólks á Íslandi“ í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í framhaldi munu aðilar verkalýðshreyfingar og Samtökin ‘78 marka sameiginlega stefnu um aðgerðir og viðbrögð. En af hverju eru þessar greiningar mikilvægar?

Upplýsingar skipta máli

Í hagrannsókninni sem kynnt verður í dag og á haustmánuðum er fjallað um mun í atvinnutekjum m.t.t. kynhneigðar á Íslandi. Þar með fæst ákveðinn spegill við þann samanburð sem dreginn hefur verið upp af kynbundnum launamun á Íslandi. Þar að auki verða kynntar niðurstöður einnar stærstu spurningakönnunar sem framkvæmd hefur verið í hinsegin samfélaginu hingað til en um 850 manns svöruðu könnuninni. Spurt er um upplifun hinsegin fólks á vinnumarkaði, um einkenni vinnumarkaðarins og einnig viðhorf þeirra til stefnu stjórnvalda og ýmissa samfélagsmála. Slíkar upplýsingar hjálpa okkur að skilja betur efnahagslega stöðu hinsegin einstaklinga á Íslandi og þann veruleika sem þau búa við. Næstu skref eru að kanna stöðu trans fólks sérstaklega. Það er ekki eingöngu mikilvægt framlag til fræðanna heldur skipta slíkar greiningar sköpum í réttindabaráttunni og sérstaklega á þeim varhugaverðu tímum sem nú geisa.

Samfélagslegir burðarásar standi með hinsegin fólki

Á árinu 2022 höfum við orðið vitni að bakslagi í réttindamálum hinsegin fólks um heim allan. Sprengjuárásin í Osló, skemmdarverk á götum úti á Íslandi, geltið á samkynhneigða og útilokun trans fólks frá keppnisíþróttum. Nú síðast hefur fólk í valdastöðu á Íslandi talað á niðrandi hátt um homma án þess að hafa verið kallað til ábyrgðar. Stuðningur og samstaða samfélagslegra burðarása með hinsegin samfélaginu skiptir höfuðmáli til framtíðar. Þar er íslenska verkalýðshreyfingin sterk viðbót en saman getum við stuðlað að nauðsynlegum breytingum og víðtækari skilningi á stöðu jaðarsettra hópa í samfélaginu. Við þurfum öll að leggjast á eitt og hampa fjölbreytileika mannlífsins, bæði innan og utan vinnustaðar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt