Chat with us, powered by LiveChat

Kynning á Starfsþróunarsetri háskólamanna

Styrkir til að auka virði á vinnumarkaði

Hlutverk Starfsþróunarseturs háskólamanna er að stuðla að framgangi félagsmanna aðildarfélaga BHM sem aðild eiga að setrinu og framþróun stofnana með markvissri starfsþróun. Setrinu er ætlað að hvetja stofnanir til að styðja starfsmenn til að auka og nýta þekkingu sína í starfi, bæta við og/eða endurnýja menntun sína og veita þeim tækifæri til að þróa faglega hæfni og viðhalda þannig verðgildi sínu á vinnumarkaði. 

Ávinningur starfsþróunar
Ávinningur af starfsþróun er mikill bæði fyrir starfsmenn og atvinnurekendur. Starfsmenn viðhalda menntun sinni og þekkingu með starfsþróun sem gefur þeim tækifæri til að þróast í starfi. Rannsóknir hafa sýnt að öflug starfsþróun eykur starfsöryggi, starfsánægju og virði einstaklinga á vinnumarkaði.

Helsti ávinningur starfsþróunar fyrir atvinnurekendur er að vinnustaðurinn verður eftirsóknarverðari og hæfni starfsfólks og starfsánægja eykst. Að jafnaði er minni starfsmannavelta hjá stofnunum og fyrirtækjum sem hvetja og styðja starfsmenn til starfsþróunar. Þá er oft bein tenging á milli á starfsþróunar starfsmanna og hagkvæmari reksturs.

Styrkir Starfsþróunarseturs til starfsþróunar
Félagsmenn aðildarfélaga BHM sem aðild eiga að setrinu geta sótt um 600.000 kr. styrki á 24 mánaða tímabili. Hægt er að sækja um styrki fyrir skólagjöldum, námskeiðum og ráðstefnum ásamt ferðakostnaði.

Eitt af hlutverkum Starfsþróunarseturs er að hvetja stofnanir til að sinna virkri starfsþróun og fjölga tækifærum til þróunar á faglegri hæfni. Stofnanir sem falla undir lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og greiða til setursins eiga rétt á styrkjum. Verkefni stofnunar þurfa að falla að markmiðum hennar í starfsþróunarmálum. Hægt er að sækja um styrki fyrir gerð starfsþróunaráætlana og verkefnum sem byggja á þeim.

Tækifæri til eflingar faglegrar hæfni fyrir aðildarfélög BHM
Þau aðildarfélög BHM sem eiga aðild að Starfsþróunarsetri háskólamanna geta sótt um styrki til að efla sína félagsmenn með fagnámskeiðum, ráðstefnum og þróunarverkefnum í faginu eða starfi stéttarfélaga.

Þau aðildarfélög BHM sem eiga aðild að Starfsþróunarsetri eru:

Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag leikstjóra á Íslandi, Félag lífeindafræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fræðagarður, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Leikarafélag Íslands, Ljósmæðrafélag Íslands, Prestafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga, Sálfræðingafélag Íslands, Félag sjúkraþjálfara og Þroskaþjálfafélag Íslands.

Starfsemi Starfsþróunarseturs háskólamanna
Starfsþróunarsetur háskólamanna hefur starfað frá 1. janúar 2012. Aðild að Starfsþróunarsetri eiga fjármála- og efnahagsráðuneyti f.h. ríkissjóðs, Samband íslenskra sveitarfélaga og BHM f.h. þeirra 19 aðildarfélaga sem talin eru hér að framan. 

Í stjórn Starfsþróunarseturs eru frá BHM Laufey Gissurardóttir (formaður), Kristmundur Þór Ólafsson og Þóra Leósdóttir. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis eru Jökull Heiðdal Úlfsson og Einar M. Þórðarson. Fulltrúi Reykjavíkurborgar er Harpa Ólafsdóttir. 

Framkæmdarstjóri Starfsþróunarsetursins er Kristín Jónsdóttir Njarðvík.