Tímabundin ráðning

Heimilt er að ráða ríkisstarfsmann til starfa tímabundið og skal ráðning þó aldrei vara samfellt lengur en í tvö ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Unnt er að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Reglur um auglýsingar á lausum störfum eiga einnig við um tímabundnar ráðningar.

Um tímabundnar ráðningar hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði er einnig fjallað í lögum um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003. Þau lög byggja á því sjónarmiði að tímabundnar ráðningar geti við ákveðnar aðstæður þjónað bæði hagsmunum launfólks og vinnuveitenda. Hins vegar verði að tryggja að þessu ráðningarformi sé ekki misbeitt. Í lögunum er tekið fram að vinnuveitandi skuli ávallt leitast við að ráða starfsmann ótímabundið. Tímabundnar ráðningar eru því undantekningin.

Markmið framangreindra laga er að tryggja að starfsmönnum með tímabundna ráðningu sé ekki mismunað miðað við þá sem ráðnir eru ótímabundið. Lögunum er ennfremur ætlað að koma í veg fyrir misnotkun er byggist á því að hver tímabundinn ráðningarsamningur taki við af öðrum án hlutlægra ástæðna.

Í ljósi þessara markmiða er í fyrsta lagi kveðið á um að starfsmaður með tímabundna ráðningu skuli hvorki njóta hlutfallslega lakari starfskjara né sæta lakari meðferð en sambærilegur starfsmaður með ótímabundna ráðningu af þeirri ástæðu einni að hann er ráðinn tímabundið nema það sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna. Gildir það m.a. að því er varðar kröfur um ákveðinn starfsaldur til að öðlast tiltekin starfskjör.

Í öðru lagi er lagðar skorður við við misbeitingu á þessu ráðningarformi með því að takmarka tímalengd og framlengingu slíkra samninga.

Óheimilt er að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár nema annað sé tekið fram í lögum. Þó er heimilt að endurnýja tímabundinn ráðningarsamning stjórnanda, sem gerður hefur verið til fjögurra ára eða lengri tíma, í jafnlangan tíma hverju sinni, sbr. 5. gr. laganna.

Nýr ráðningarsamningur telst taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn ráðningarsamningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings. Þessi frestur var upphaflega þrjár vikur en var lengdur í sex vikur með lögum nr. 84/2009. Í skýringum með frumvarpi til þessara laga segir að sex vikur þyki hæfilegur tími og nái tilgangi laganna við að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum. Áhersla er lögð á að meginreglan á íslenskum vinnumarkaði sé sú að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið að teknu tilliti þess sveigjanleiki í ráðningum á almennum vinnumarkaði sem ætlað er að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra.

Álit umboðsmanns Alþingis

Í áliti umboðsmanns Alþingis (mál nr. 4929/2007) var fjallað um heimild skólastjórnanda til að bjóða kennara tímabundna ráðningu eftir að hann hafði starfað við skólann samfellt í tvö ár.

Niðurstaða umboðsmanns var að sú ákvörðun hefði ekki verið í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 70/1996, sbr. einnig lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Umboðsmaður lagði áherslu á að með ákvæðum 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 og 5. gr. laga nr. 139/2003 hefði löggjafinn tekið skýra og afgerandi afstöðu til þess að ekki væri heimilt að ráða starfsmenn tímabundinni ráðningu lengur en tvö ár samfellt í senn. Ekki væri í lögum að finna nein ákvæði þess efnis að annað gilti um þá sem starfa í framhaldsskólum. Stjórnsýslan væri í störfum sínum bundin af þeim lögum sem um hana giltu og ákvarðanir og/eða athafnir stjórnvalda yrðu annars vegar að eiga sér stoð í lögum og mættu hins vegar ekki brjóta í bága við lög.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt