Trúnaðarmenn

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélags á vinnustað. Hann er kosinn af samstarfsfólki í sama stéttarfélagi eða tilnefndur af stéttarfélaginu sjálfu.

Hlutverk trúnaðarmanns er í senn að vera tengiliður milli vinnuveitanda og samstarfsfólks í sama stéttarfélagi og tengiliður vinnuveitanda við stéttarfélag.

Trúnaðarmaður verður alltaf að skila til stéttarfélags þar til gerðu eyðublaði um tilnefningu sína eða kosningu til að hljóta staðfestingu sem trúnaðarmaður. Ef hann gerir það ekki nýtur hann ekki verndar sem trúnaðarmaður, en verndin felst til dæmis í að ekki er leyfilegt að segja trúnaðarmanni upp fyrir að sinna trúnaðarstörfum.

Stjórn og starfsmenn stéttarfélags eru stuðningsaðilar trúnaðarmanns og eru honum innan handar við að leysa úr erindum og álitamálum sem upp koma á vinnustað og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins.

Mjög misjafnt getur verið eftir stéttarfélögum hvaða skyldum og hlutverkum trúnaðarmönnum er ætlað að gegna og því mikilvægt fyrir trúnaðarmenn að vera í góðu sambandi við sitt stéttarfélag.

Helstu hlutverk geta verið að:

  • Hafa eftirlit með því að atvinnurekandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings, laga og reglugerða um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á.
  • Meta hvaða ákvæðum kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, m.a. þegar staðið er að undirbúningi fyrir kröfugerð vegna kjarasamninga.
  • Taka við umkvörtunum starfsmanna og vera talsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda.
  • Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni.
  • Taka á móti nýjum starfsmönnum, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess

Samningar og lög um trúnaðarmenn

Ákvæði um trúnaðarmenn og voru lögfest í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Þau ákvæði eru enn í fullu gildi fyrir almennan markað.

Nánari skilgreiningar og réttindaákvæði um trúnaðarmenn má ýmist finna í kjarasamningum, samkomulagi heildarsamtaka um trúnaðarmenn eða í lögum um opinbera starfsmenn.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt