Chat with us, powered by LiveChat

Hlutverk trúnaðarmanna

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélags á vinnustað

Trúnaðarmaður er tengiliður milli félagsmanna á vinnustað og vinnuveitanda annars vegar og milli félagsmanns og stéttarfélags hins vegar. Trúnaðarmaður stendur ekki einn og er stjórn og starfsmenn stéttarfélags honum til aðstoðar við að leysa úr þeim erindum sem upp kunna að koma og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins. Mjög misjafnt getur verið eftir stéttarfélögum hvaða skyldum og hlutverkum trúnaðarmönnum er ætlað að gegna.

Helstu hlutverk trúnaðarmanns geta verið þessi:

  • Hafa eftirlit með því að atvinnurekandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings, laga og reglugerða um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á.
  • Meta hvaða ákvæðum kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, m.a. þegar staðið er að undirbúningi fyrir kröfugerð vegna kjarasamninga.
  • Taka við umkvörtunum starfsmanna og vera talsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda.
  • Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni.
  • Taka á móti nýjum starfsmönnum, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess.

Nánar um hverjir teljast til trúnaðarmanna

Með lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 voru fyrst lögfest ákvæði um trúnaðarmenn auk skilgreiningar á því hverjir teljist trúnaðarmenn og eru þau ákvæði enn í fullu gildi fyrir almennan markað.

Nánari skilgreiningar og réttindaákvæði um trúnaðarmenn má ýmist finna í kjarasamningum, samkomulagi heildarsamtaka um trúnaðarmenn eða í lögum um opinbera starfsmenn. Hér verður nánar fjallað um þau ákvæði er gilda um trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði, hjá ríki og sveitarfélögum.  Umfjöllunin miðar eingöngu við félagsmenn í aðildarfélögum BHM.

Opinberir stafsmenn (ríki og sveitarfélög)

Í samkomulagi um trúnaðarmenn frá árinu 1989 er að finna nánari skilgreiningu á því hverjir teljast trúnaðarmenn sem er víðtækari en í ofangreindum lögum, en eftirtaldir teljast til trúnaðarmanna:

  1. Kjörnir trúnaðarmenn á vinnustöðum.
  2. Stjórnarmenn stéttarfélaga.
  3. Samninganefndarmenn stéttarfélaga.
  4. Fulltrúar í aðlögunar-, úrskurðar-, og samstarfsnefndum.

Gengið var frá svipuðu samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga í kjarasamningum 2011.  Ofantaldir aðilar njóta þeirra réttinda og verndar sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 gera ráð fyrir.  Þá er að finna í ofangreindu samkomulagi rétt trúnaðarmanna til fjarveru vegna trúnaðarstarfa. Sjá nánar umfjöllun um réttindi og vernd trúnaðarmanna.

Starfsmenn á almennum vinnumarkaði

Í kjarasamningi aðildarfélaga  BHM og Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2011 var bætt við sérstökum kafla um trúnaðarmenn. Að öðru leyti er ákvæði um trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði að finna í  lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.  

Könnun um hlutverk og verksvið trúnaðarmanna

Könnun BHM, BSRB, KÍ og fjármálaráðuneytis um hlutverk og verksvið trúnaðarmanna

Ákvæði um trúnaðarmenn í samningum og lögum