Stytting vinnuvikunnar hjá hinu opinbera

Upplýsingar um framkvæmd styttingar vinnuvikunnar - ætlaðar fyrir trúnaðarmenn og fulltrúa í vinnutímanefndum

Hér að neðan munu birtast myndbönd unnin af starfsfólki BHM um styttingu vinnutíma í kjölfar kjarasamningalotunnar 2019–2020. Gott er að hafa í huga að samkomulag um styttingu vinnutíma hefur ekki verið fært inn í kjarasamninga heldur er það í fylgiskjölum við þá. Áður en núgildandi kjarasamningar renna út munu samningsaðilar meta í sameiningu áhrif breytinganna og hvort núverandi framsetning á ákvæðum um vinnutíma henti til frambúðar.

Almenn kynning á styttingu vinnuvikunnar hjá hinu opinbera

Karen Ósk Pétursdóttir sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá BHM fer yfir helstu atriði sem huga þarf að við styttingu vinnuvikunnar.

  • Athugið að í myndbandinu er ekki farið yfir hvernig yfirvinnu verður háttað í kjölfar styttingarinnar því það var ekki ljóst þegar myndbandið var gert. Sjá upplýsingar um yfirvinnu hér að neðan.
  • Dæmin um styttingu sem farið er yfir í myndbandinu má skoða nánar í þessari kynningu: Betri vinnutími dagvinnufólks.
  • Einnig má skoða dæmin þrjú með því að smella á þetta pdf skjal sem opnast í nýjum glugga. 

Um yfirvinnu dagvinnufólks

Tvískipt yfirvinna tekur gildi 1. janúar 2021 hjá öllum stéttarfélögum sem sömdu þar um. Frá sama tíma mun eftirfarandi ákvæði gilda um yfirvinnu 1 og 2:

Yfirvinna er greidd með tímakaupi, sem skiptist í yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2. Tímakaup yfirvinnu 1 er 0,9385% af mánaðarlaunum en tímakaup yfirvinnu 2 er 1,0385% af mánaðarlaunum.
Greiðsla fyrir yfirvinnu skal vera með eftirtöldum hætti:
Yfirvinna 1 kl. 08.00 - 17.00 mánudaga – föstudaga.
Yfirvinna 2 kl. 17.00 - 08.00 mánudaga – föstudaga.
Yfirvinna 2 kl. 00.00 - 24.00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga.
Tímakaup yfirvinnu 2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 stundir á viku (173,33 stundir miðað við meðalmánuð).

Upplýsingar um breytingu á vinnutíma dagvinnufólks er að finna kjarasamningum aðildarfélaga BHM, þ.e. í fylgiskjali 1 (ríki og borg) og fylgiskjali 2 (sveit). Efni fylgiskjalanna er í grunninn eins þótt orðalag og dagsetningar séu ekki nákvæmlega eins.

Hlekkir á stuðningsefni við innleiðingu styttingar:

Staðfesting um að samkomulag hafi náðst

Þegar niðurstaða um skipulag vinnutíma liggur fyrir skal hún annars vegar borin undir atkvæði þeirra sem starfa hjá viðkomandi starfsstað og hins vegar skal senda staðfestingu til hlutaðeigandi aðila.

  • Ríki: Hlutaðeigandi ráðuneyti eða eftir atvikum stjórn stofnunar
  • Reykjavíkurborg: Hlutaðeigandi sviðsstjóri
  • Sveitarfélög: Hlutaðeigandi sveitarstjórn

Jafnframt skal senda afrit af samkomulaginu til eftirfarandi aðila eftir atvikum:

  • Ríki: Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og heildarsamtök/stéttarfélög
  • Reykjavíkurborg: Skrifstofa kjaramála og heildarsamtök/stéttarfélög
  • Sveitarfélög: Innleiðingarhópur