Fræðslustefna BHM

Stefnan var samþykkt af stjórn BHM 30. mars 2021

BHM – Bandalag háskólamanna eru heildarsamtök fag- og stéttarfélaga háskólamenntaðs fólks á íslenskum vinnumarkaði. Í lögum bandalagsins, grein 1.1. stendur að hlutverk BHM sé að:

„Efla aðildarfélög bandalagsins og starf þeirra í því skyni að stuðla að gagnkvæmum stuðningi og samstöðu um hagsmuni háskólamenntaðra á vinnumarkaði og efla þekkingu félagsmanna og trúnaðarmanna félaganna á réttindamálum á vinnumarkaði.“

Jafnframt stendur í Bókun 1 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM við ríkið frá árinu 2014:

Aðilar eru sammála um að frá með 1. júlí 2014 greiði launagreiðandi sérstakt iðgjald sem nemur 0,1% af heildarlaunum til BHM. Fjármunum þeim skal verja til eflingar hagfræðilegrar greiningar, fræðslu til trúnaðarmanna og námskeiðshalds í þágu félagsmanna aðildarfélaga BHM.

Það er því stefna BHM að bjóða trúnaðarmönnum, starfsfólki og félagsmönnum aðildarfélaga upp á fræðslu og námskeið sem efla þekkingu þeirra á réttindamálum á vinnumarkaði. Jafnframt að hvetja þessa hópa til símenntunar með áhugaverðum fyrirlestrum og námskeiðum. Markmiðið er að halda félagsmönnum upplýstum um yfirstandandi og væntanlegar breytingar á lögum, reglum og kjörum á vinnumarkaði og þeim straumum og stefnum sem hafa áhrif á störf þeirra í nútíð og framtíð.

Markhópar fræðslu BHM

 • Almennir félagsmenn aðildarfélaga BHM
 • Trúnaðarmenn aðildarfélaga BHM
 • Starfsfólk aðildarfélaga BHM

Markmið fræðslu til almennra félagsmanna BHM

 • Að upplýsa um vinnumarkaðstengd málefni, lög og reglur sem varða réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda. Það felur einnig í sér framboð á fræðslu sem miðar að því að jafna stöðu minnihlutahópa innan BHM (s.s. fatlaðra, blindra, heyrnaskertra, fólks af erlendum uppruna) á við aðra félagsmenn, með t.d. fræðslu um réttindi þeirra og jafnt aðgengi.
 • Að bjóða upp á námskeið eða fyrirlestra sem efla félagsmenn í starfi almennt, s.s. með fræðslu um samskipti á vinnustað, jafnrétti, einelti og áreitni, verkefnastjórnun, notkun algengra tölvuforrita o.s.frv.

Markmið trúnaðarmannafræðslu

 • Að veita trúnaðarmönnum ítarlega fræðslu um réttindi og skyldur trúnaðarmanna, starfsfólks og atvinnurekenda.
 • Að trúnaðarmenn þekki betur en almennt gerist til allra réttindatengdra mála á vinnumarkaði, viti hvert á að snúa sér vegna mála sem upp koma á vinnustað og hvar á að að leita viðeigandi upplýsinga.

Markmið fræðslu til starfsfólks aðildarfélaga BHM

 • Að bjóða upp á fræðslu sem styrkir starfsfólk í sínum stéttarfélagsstörfum, s.s. hagfræðilegar greiningar og hagtölur, námskeið um undirbúning kjaraviðræðna og samningatækni eða annað sem nýtist í kjaraviðræðum.
 • Að bjóða upp á fræðslu tengda þjónustu við félagsmenn, s.s. námskeið um samskipti, sáttamiðlun, upplýsinga- og kynningarmál o.fl.

Skipulag og framkvæmd

Fræðsludagskrá skal lögð fram tvisvar til þrisvar á ári og birt á heimasíðu BHM.

Vettvangur fræðslu er þríþættur:

 • Stafrænn, þ.e. á fræðslusíðu bhm.is, Youtube og Livestream síðum BHM
 • Námskeið í sal BHM í Borgartúni 6
 • Málþing

Leitast er við að bjóða upp á rafræn námskeið eins og við verður komið þannig að sem flestir geti nýtt sér þau. Einnig með því að bjóða upp á námskeið í húsi eða málþing þegar viðfangsefnin eru þess eðlis.

Ábyrgð og hlutverk

Fræðslufulltrúi annast fræðslu bandalagsins í samstarfi við framkvæmdastjóra og formann.

Hlutverk og ábyrgð fræðslufulltrúa er skipulagning fræðsludagskrár og allt utanumhald, s.s. upplýsingamiðlun, gerð kostnaðaráætlunar, árangursmat og endurskoðun stefnu.

Sérfræðingar BHM annast miðlun á efni sem er á þeirra sérsviði í samstarfi við fræðslufulltrúa, efni/myndbönd frá BHM skulu endurskoðast a.m.k. einu sinni á ári.

Árangursmat

Mat er lagt á árangur fræðslunnar með því að fylgjast með tölum um aðsókn og áhorf á fræðslumyndbönd, tölur og útleggingar af þeim skulu lagðar fram einu sinni á ári.

Einnig skulu gerðar þjónustukannanir á a.m.k. þriggja ára fresti.

Endurskoðun stefnu

Stefnan skal endurskoðuð á tveggja ára fresti, næsta endurskoðun skal fara fram í febrúar 2023.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt