Barnabætur eru eitt mikilvægasta tæki fjölskyldustefnu stjórnvalda og þær geta þjónað mismunandi hlutverki. Eitt þeirra er að draga úr fátækt barna, annað er að jafna lífskjör milli barnafólks og fjölskyldna án barna, það þriðja að jafna lífskjör barna í stórum og litlum fjölskyldum o.fl. Vegna ólíkra markmiða, sögu og menningar eru kerfin ólík á milli landa. Sum byggja á lóðréttri endurskiptingu gæða, þannig að gæði eru færð frá þeim tekjuhærri til þeirra tekjulægri, en önnur á láréttri endurskiptingu þannig að gæði eru flutt á milli ólíkra hópa með svipaðar tekjur, t.d. barnlaust fólk og fólk með uppkomin börn greiðir til fjölskyldna með börn. Á Íslandi er svokallað lágtekjumiðað barnabótakerfi, þannig að skerðingarmörk eru við lágmarkslaun og skerðingar eru brattar svo þegar tveggja fyrirvinnu-fjölskylda hefur náð meðallaunum eru skerðingarnar nokkurn veginn búnar að þurrka bæturnar út. Íslenska kerfið sker sig úr á Norðurlöndunum í þessu, og raunar er Ísland eitt af tveimur Norðurlöndum sem miðar barnabætur við tekjur, eins og farið verður yfir síðar.
Halda mætti að lágtekjumiðaðar barnabætur væru skilvirkari til að draga úr barnafátækt en hin, en það er ekki raunin. Þvert á móti eru rannsóknir samróma um að almennu kerfin beri mun meiri árangur en þau lágtekjumiðuðu. Ástæðan er stuðningurinn á bak við aðstoðina, eftir því sem fleiri njóta aðstoðarinnar því almennari er áhuginn fyrir því að umrædd aðstoð sé vel veitt. Almennt barnabótakerfi er því fátækasta hluta samfélagsins til hagsbóta.
Íslenska kerfið
Barnabótakerfið á Íslandi er lágtekjumiðað kerfi þar sem bótafjárhæð ákvarðast af þrennu: Hjúskaparstöðu, tekjum og barnafjölda. Miðað er við tekjuárið á undan. Að auki er viðbótarstuðningur greiddur sé eitthvert barnanna undir 7 ára aldri. Skerðingarmörkin eru við laun upp á 395 þúsund fyrir einstaklinginn á mánuði (margfaldað með 2 fyrir hjón). Til samanburðar má nefna að þegar launum fólks á Íslandi í fullu starfi er raðað í tíundir þá voru mörkin í heildarlaunum fyrir neðstu tíundina um hundrað þúsund krónum hærri, eða 493 þúsund, árið 2021 samkvæmt launarannsókn Hagstofu Íslands. Það er því sjaldgæft að fólk í fullu starfi (bæði í tilfelli hjóna) fái óskertar barnabætur á Íslandi.
Grunnupphæðir fara eftir fjölda barna en þær eru svo skertar að teknu tilliti til bæði tekna og fjölda barna. Í tilfellum hjóna er, árið 2022, greitt 248 þúsund á árinu með fyrsta barni og svo 295 þúsund með hverju barni eftir það en í hlutfalli einstæðs foreldris eru þessar upphæðir 413.000 og 423.000. Skerðingarlógíkin er svo tvíþætt. Sé tekið mið af einstæðu foreldri er dregið ákveðið hlutfall (eftir fjölda barna) af þeim tekjum sem eru á milli 4.549.000 og 6.160.000 frá bótaupphæðinni og svo annað hlutfall af þeim tekjum sem eru yfir 6.160.000 (þessi mörk eru svo tvöföld fyrir hjón). Sé eitthvert barnið undir 7 ára aldri bætast svo við barnabæturnar 148.000 krónur sem skerðast um 4% af öllum tekjum umfram lægri skerðingarmörk.