Trúverðugleiki „svigrúmsins“
Á vordögum 2010, á botni efnahagslægðarinnar, sagði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra ekkert svigrúm vera til launahækkana næsta árið hið minnsta og félagsmálaráðherra taldi ráðlegt að frysta launahækkanir á opinbera markaðnum til 2013. Að teknu tilliti til óvissunnar í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, hagvaxtarhorfa, skuldastöðu ríkissjóðs og stöðu fyrirtækja innan krónuhagkerfisins á þeim tíma er þessi afstaða að mörgu leyti skiljanleg. Annað gildir um afstöðuna síðar á áratugnum.
Þegar rætt er um efnahagslegt svigrúm í skilningi atvinnulífsins er nærtækast að líta eingöngu til hagvaxtar og launahlutfalls á almenna markaðnum. Á tíma ferðamannauppsveiflunnar 2010-2019 var hagvöxtur á almennum markaði alls 44% og mestur um 8% á árinu 2016. Þrátt fyrir þennan mikla hagvöxt í sögulegu tilliti sögðu ráðamenn og forsvarsmenn atvinnulífsins nær undantekningarlaust ekki vera svigrúm til launahækkana. Ekkert, lítið eða nánast ekki neitt. Það voru forskeytin sem fylgdu orðinu svigrúm í málflutningi þeirra í fjölmiðlum um launahækkanir nær allt tímabilið, óháð hagvexti eða hagvaxtarhorfum. Það er áhugavert að ráðamenn endurómuðu sjónarmið atvinnulífsins í nær öllum tilvikum. Er það síst til þess fallið að skapa traust milli verkalýðshreyfingarinnar og viðsemjenda.