Bjarney L. Bjarnadóttir framkvæmdastjóri UMSB. Hún er með MS í forystu og mannauðsstjórnun og MLM í forystu og verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst
Rannsóknin sem kynnt var á fundinum sýndi að kröfur um samskiptahæfni eru gerðar í 77% allra auglýstra starfa á Íslandi. Slíkar óljósar og oft ómældar kröfur – eins og „framúrskarandi samskiptahæfni“ eða „há tilfinningagreind“ – geta skapað verulegar hindranir fyrir einhverft fólk. Þátttakendur lýstu því að ábyrgðin væri gjarnan sett á þau sjálf: að þau væru „vandamálið“ fremur en að vinnuumhverfi og menning væru ekki hönnuð fyrir fjölbreyttar þarfir starfsfólks.
Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að opinberi geirinn gerir ríkari kröfur um samskiptahæfni en einkageirinn, sérstaklega í störfum á lægri hæfnisstigum. Þetta getur þrengt enn frekar að einhverfum einstaklingum í opinberum störfum.
Erindið vakti athygli á alþjóðlegum fyrirmyndum. Til að mynda hafa fyrirtæki á borð við SAP og Microsoft sett sér metnaðarfull markmið um að fjölga einhverfu starfsfólki, enda sé sá hópur talinn mikilvægur og vannýttur mannauður með fjölbreytta hæfileika. Í Bretlandi hefur herferðin Disability Confident employer hjálpað atvinnurekendum að skapa traustari, réttlátari og skilvirkari vinnustaði með aukinni meðvitund um þennan hóp.
Í erindinu var bent á að sumar atvinnugreinar glíma við skort á starfsfólki á sama tíma og margir einhverfir einstaklingar eiga erfitt með að fá starf við hæfi eða ná fótfestu á vinnumarkaði. Það er því bæði samfélagsleg og efnahagsleg ástæða til að tryggja að vinnustaðir taki mið af ólíkri starfshæfni – og að störf séu aðlöguð að starfsfólki, ekki öfugt.