Hagkorn BHM

Hvert erum við að stefna?

Steinar Holden, sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum, var fenginn árið 2016 til að leggja til fyrirkomulag við gerð kjarasamninga á Íslandi með norræna fyrirmynd að leiðarljósi. Hann lagði áherslu á að samningar byggðu á prósentuhækkunum sem grunnviðmiði fyrir launabreytingar í þeim samningum sem á eftir kæmu. Þannig myndu fyrstu samningar hverrar lotu hafa leiðandi áhrif á samninga sem gerðir væru í kjölfarið. Þetta fyrirkomulag var hugsað til að stuðla að stöðugleika og samræmi. Í reynd hafa kjarasamningar síðustu ára þróast á annan veg, blanda krónutölu- og prósentuhækkana í síðustu kjarasamningum hefur leitt til hlutfallslega meiri hækkunar á lægri launum, sem hefur minnkað launamun milli ólíkra menntunarstiga. Þessi þróun getur dregið úr hvata til menntunar og sérhæfingar þar sem fjárhagslegur ábati verður takmarkaðri en áður.

Atvinnustefna stjórnvalda, sem nú er unnið að, leggur áherslu á aukna verðmætasköpun, nýsköpun og fjölgun starfa sem byggja á sérfræðiþekkingu og hárri framleiðni. Án skýrrar stefnu í launamálum, sem styður þessa atvinnustefnu, er hætta á að hvati til menntunar og sérhæfingar minnki, sem getur hamlað framþróun samfélagsins og unnið gegn markmiðum nýrrar atvinnustefnu.

Afleiðingar blandaðrar nálgunar

Undanfarin ár hafa kjarasamningar í auknum mæli byggst á krónutöluhækkunum, annaðhvort sem eini hækkunarliðurinn eða samhliða prósentuhækkunum. Slík blönduð nálgun hefur tryggt tekjulægri hópum hlutfallslega meiri hækkun og þannig styrkt stöðu þeirra á vinnumarkaði, sem var full þörf á. Hins vegar hefur samspil krónutölu- og prósentuhækkana dregið úr launamun þeirra sem eru ofar í tekjustiganum og þrengt launaspönnina innan kerfisins. Afleiðingin er minna launabil á milli starfa og ábyrgðarstiga, sem getur haft áhrif á hvata til sérfræðiþekkingar og menntunar til lengri tíma. Á sama tíma, þ.e. frá 2008, hefur ávinningur af háskólamenntun dregist verulega saman og er nú með því lægsta sem þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þetta dregur úr hvata til menntunar og sérhæfingar þar sem fjárhagslegur ábati fagþekkingarinnar verður takmarkaðri.

Tíundarstuðull heildarlauna er mælikvarði á launadreifingu sem ber saman laun efstu 10% launþega við laun lægstu 10%. Stuðullinn sýnir hversu mörgum sinnum hærri laun efstu tíundar eru miðað við neðstu tíund. Ef stuðullinn lækkar þýðir það að bilið milli hæstu og lægstu launa minnkar sem endurspeglar aukna samþjöppun launa. Áhrifin eru sérstaklega skýr á opinbera vinnumarkaðnum, þar sem krónutöluhækkanir og miðlægar aðgerðir hafa verið ráðandi. Á árunum 2019 til 2022 lækkuðu tíundastuðlar markvert, sem bendir til samþjöppunar launa. Á síðustu tveimur árum hefur þessi þróun haldið áfram á opinberum vinnumarkaði, þar sem krónutöluhækkanir og miðlægar aðgerðir hafa áfram styrkt stöðu lægri tekjuhópa. Á almennum vinnumarkaði má greina vægan viðsnúning sem gæti markað ólíkt svigrúm til launasetningar, þ.e. að meira svigrúm sé til launahækkana á almennum vinnumarkaði en þeim opinbera.

Launaþróun 2019–2025: Hvar stendur BHM?

Á árunum frá mars 2019 til júní 2025 hefur reglulegt tímakaup hækkað verulega á íslenskum vinnumarkaði. Þróunin hefur þó verið misjöfn eftir geirum og bandalögum, bæði hvað varðar umfang hækkana og hvort þær hafi komið fram sem hækkun á föstu tímakaupi eða í formi viðbótargreiðslna. Á almenna markaðnum hefur reglulegt tímakaup að jafnaði fylgt þróun fastra launa, þó að í sumum tilvikum megi greina breytingar í launasamsetningu. Sú þróun er þó misjöfn milli hópa. Hjá öðrum bandalögum hefur reglulegt tímakaup víða hækkað mun hraðar en hjá BHM, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum. Þar nemur hækkun reglulegs tímakaups á tímabilinu 78-86% hjá öðrum bandalögum, á meðan sambærileg hækkun hjá hópum BHM er 53-63%. Þessi munur endurspeglar að launaþróun hefur verið ólík eftir hópum og mörkuðum.

Á almenna markaðnum er myndin önnur. Þar hafa hækkanir á reglulegu tímakaupi hjá BHM og öðrum bandalögum verið svipaðar, bæði yfir allt tímabilið 2019-2025 og á gildistíma nýjustu kjarasamninga frá 2024-2025. Það bendir til þess að markaðsdrifnar launahækkanir, eða launaskrið, hafi haft veruleg áhrif og dregið úr muninum milli bandalaga á almenna markaðnum.

Þegar horft er sérstaklega á tímabilið frá febrúar 2024 til júní 2025 sést sama mynstur. Hækkun reglulegs tímakaups hjá BHM er þar á bilinu 10-12% á öllum mörkuðum.

Á þeim tíma sem liðinn er frá síðustu samningum (febrúar 2024–júní 2025) er hækkun grunntímakaups og reglulegs tímakaups hjá BHM lægri en hjá öðrum hópum. BHM fékk þó í september 2025 viðbótarhækkun hjá ríkinu (launatöfluauka) sem er vegna viðauka í kjarasamningum um að laun hjá hinu opinbera eigi að halda að jafnaði í við þróun sambærilegra hópa á almenna markaðnum.

Hvað þýðir þetta fyrir framtíðina?

Ef haldið er áfram með sama hætti, með krónutöluhækkunum, einum og sér eða samhliða prósentuhækkunum, er víst að launamunur mun verða enn minni og launaspönnin þjappaðri. Það gæti haft víðtækar samfélagslegar afleiðingar, þar á meðal skort á háskólamenntuðum í greinum þar sem laun endurspegla ekki kostnað og tíma sem fer í menntun. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um rannsókn á virði háskólamenntunar, gefin út í fyrra, sýnir að fjárhagslegur ábati af háskólamenntun hefur dregist saman og hallar í dag á þá sem verja mörgum árum og miklum kostnaði í menntun.

Háskólamenntaðir koma seinna inn á vinnumarkaðinn, oft með þunga greiðslubyrði vegna námslána og hefja lífeyrissparnað síðar en aðrir. Þegar launamunur minnkar, minnkar einnig hvati til sérhæfingar. Samfélagið byggir þó á sérfræðiþekkingu; kennslu, hugverkum, heilbrigðisþjónustu, verkfræði, skapandi greinum og annarri fagþekkingu sem krefst langrar menntunar og mikillar ábyrgðar. Ef launastefna hins opinbera veikir stöðu þessara hópa til lengri tíma er grafið undan grunnstoðum þjónustu og velferðar í íslensku samfélagi.

BHM vill hefja samtalið um skynsamlega launastefnu í stað tilviljanakenndra ákvarðana frá einum samningi til annarra. Afar brýnt er að launagreiðendur á opinbera markaðnum taki höndum saman og stuðli að því að gera háskólamenntun eftirsóknaverða og hvetjandi fyrir unga fólkið að verða sér úti um sérfræðiþekkingu. Þannig aukast líkurnar á að metnaðarfull atvinnustefna stjórnvalda nái fram að ganga.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt