Menningargreinar dragast mikið saman

Mikill samdráttur hefur orðið í heildarlaunagreiðslum í atvinnugreinum menningar síðustu ár og starfslaun listamanna eru með lægstu launum á markaði. Hrunið og heimsfaraldur höfðu margfalt meiri áhrif á menningargreinar en aðrar atvinnugreinar. Þetta er meðal þess sem má lesa úr menningarvísum Hagstofu Íslands og gögnum um kjör listamanna á Íslandi.

25% samdráttur í fjölda starfandi og 40% samdráttur í launagreiðslum

Á árinu 2008 unnu tæplega 7.000 manns í atvinnugreinum menningar* á Íslandi og heildarlaunagreiðslur í greinunum námu 55 ma.kr., á launaverðlagi ársins 2020**. Nú, 12 árum síðar, nema launagreiðslurnar 33 ma.kr. og rúmlega 5.000 manns vinna í menningargreinum. Samdrátturinn á þessu tímabili nemur 25% í fjölda starfandi og 40% í heildarlaunagreiðslum. Verulega tók að draga í sundur með atvinnugreinum menningar og öðrum atvinnugreinum eftir 2013. Bendir þróunin til þess að umfang menningargreina hafi dregist verulega saman í íslenska hagkerfinu og að launastigið sé lægra en í öðrum atvinnugreinum.

Mikill samdráttur frá 2017 í einstaka greinum

Einstaka menningargreinar hafa dregist verulega saman í umsvifum frá 2017. Heildarlaunagreiðslur í fjölmiðlum hafa dregist saman um 45%, 41% í kvikmyndagreinum og 26% í tónlist, svo dæmi séu nefnd. Samdráttur í mörgum greinum var hafinn nokkuð fyrir heimsfaraldur en efnahagsáfall í kjölfar hans bætti gráu ofan á svart eins og myndin að neðan sýnir.

Starfslaun listamanna hafa dregist langt aftur úr

Árið 2011 voru námu starfslaun listamanna um 275 þús. kr. á mánaðaragrundvelli en tæplega 410 þús.kr. árið 2021. Hækkunin nemur alls 49% á 10 ára tímabili en á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 96%. Ef starfslaunin hefðu fylgt almennri launaþróun síðustu 10 ár myndu þau nema 537 þús. kr. á árinu 2021 í stað 410 þús.kr., eða 40% hærri upphæð en raunin varð. Lág starfslaun gætu skýrt hluta af samdrætti í einstaka greinum m.a. í útgáfu og framleiðslu íslenskra bóka. Árið 2019 voru gefnar út 3,4 íslenskar bækur pr. 1.000 íbúa samanborið við 5,2 árið 2011.

Verktakagreiðsla sem jafngilti 75% af heildarlaunum verkafólks árið 2020

Starfslaun listamanna er verktakagreiðsla sem ætlað er að standa undir 67% af heildarvinnu listamanns. Sá sem þiggur verktakagreiðslu þarf að standa skil á ýmsum gjöldum og telst því verktakagreiðsla ígildi lægri launa. Sé tekið tillit til 67% hlutfallsins og launatengdra gjalda má draga þá ályktun að fullvinnandi listamenn hafi verið verðlagðir upp á 463 þús. kr. á mánaðargrundvelli fyrir skatt árið 2020***. Á sama tíma voru meðalheildarlaun fullvinnandi verkafólks á markaði 613 þús. kr. á mánaðargrundvelli og meðallaun háskólamenntaðra 855 þús. kr. eða 85% hærri. Hér ber að hafa í huga að meirihluti listamanna hefur listnám á háskólastigi að baki.

Marka þarf stefnu um aukinn stuðning við listir og menningu

Efnahagsleg áföll á borð við efnahagshrunið og heimfaraldur kórónuveiru hafa hvor um sig haft um tvisvar sinnum meiri áhrif á menningargreinar en aðrar atvinnugreinar****. Þá er batinn í atvinnugreinum menningar líklegur til að verða hægari en í öðrum atvinnugreinum. Á fyrstu 6 mánuðum ársins 2021 voru heildarlaunagreiðslur í atvinnugreinum menningar 15% undir heildarlaunagreiðslum á sama tímabili árið 2019. Bati í öðrum atvinnugreinum hefur verið nokkuð hraðari.

Af hverju að styðja við listir og menningu?

Listir- og menning á Íslandi auðga samfélagið umfram það sem mælist í verði þeirra. Margs konar jákvæð ytri áhrif eru af listum og menningu en viðvarandi markaðsbrestir eru í framleiðslu lista og einkamarkaður mun seint tryggja þjóðhagslega hagkvæmt framboð þeirra. Tengsl efnahagslífs og menningar eru margbrotin og fyrir fámennt samfélag með eigið tungumál þjónar menningin sem lím í samfélagsgerðinni. Mikilvægt er að hið opinbera marki stefnu um aukinn stuðning við menningu á Íslandi, að öðrum kosti er hætt við að menningargreinar beri varanlegan skaða af heimsfaraldri.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt