Menntun kvenna undirverðlögð hjá sveitarfélögum

40 prósent launamunur er milli sveitarfélaga og almenns markaðar hjá háskólamenntuðum sérfræðingum.

Mikill launamunur var milli markaða hjá háskólamenntuðum sérfræðingum árið 2020. Ríkið greiddi að jafnaði 25 prósent lægra tímakaup til sérfræðinga en fyrirtæki á almennum markaði. Sveitarfélög greiddu 40 prósent lægra tímakaup. 83 prósent háskólamenntaðra sérfræðinga hjá sveitarfélögum eru konur.

Fullvinnandi sérfræðingar verulega undirverðlagðir hjá sveitarfélögum

Á árinu 2020 voru regluleg heildarlaun fullvinnandi sérfræðinga* á almennum markaði 956 þús. kr. á mánaðargrundvelli samanborið við 824 þús. kr. hjá ríkinu og 620 þús. kr. meðal sveitarfélaga. Sé horft til reglulegra heildarlauna á greidda vinnustund** má sjá að 25% launamunur er milli almenns markaðar og ríkisins í sérfræðistörfum og 40% milli almenns markaðar og sveitarfélaganna. Sterk fylgni virðist vera milli lágs launastigs og hlutdeildar kvenna í störfum en samkvæmt úrtaksramma launarannsóknar Hagstofunnar eru 83% starfandi sérfræðinga hjá sveitarfélögum konur***. Margir þessara sérfræðinga eiga langt háskólanám að baki og sinna þjóðhagslega mikilvægum störfum á við þroskaþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og kennslu í grunnskólum, svo fátt eitt sé nefnt.

Taka þarf höndum saman til að jafna laun

Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um að kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er. Markmiðið var að tryggja að ekki yrði kerfislægur launamunur milli markaða til frambúðar. Jöfnunin átti að eiga sér stað á 6-10 árum sem þýðir að henni á að vera lokið árið 2026 í síðasta lagi. Erfiðlega hefur þó gengið að ná samkomulagi m.a. um bætt kjör kvennastétta. Stefna ætti að þjóðarsátt um endurmat starfa á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin geta illa axlað ábyrgðina ein án þess að hækka skatta eða auka lántöku en hafa ber hér í huga að laun námu 65% af skatttekjum sveitarfélaga á árinu 2020 samanborið við 36% hjá ríkinu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt