Mikilvægi skattfrjálsrar ráðstöfunar fyrir heimili landsins

Heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán tók gildi þann 1. júlí 2014.

Úrræðið hefur létt verulega undir með heimilum landsins frá þeim tíma en raunhækkun húsnæðisverðs á Íslandi (hækkun umfram verðbólgu) hefur mælst 53% á tímabilinu samanborið við 23% að meðaltali innan OECD. Aðeins mældist meiri hækkun í Ungverjalandi skv. samanburði OECD á raunverðshækkunum á tímabilinu.

Með framlengingu er komið til móts við aukna skuldaáhættu heimila

Heimili landsins juku verulega við húsnæðisskuldir sínar á árinu 2020. Áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði og fjárhagslega stöðu heimila í kjölfar „kófsins“ gætu orðið töluverð. Framlenging á ráðstöfun séreignarsparnaðar til 2023 er mikilvæg áhætturáðstöfun fyrir heimili á tímum skerts afkomuöryggis og aukinnar efnahagsóvissu.

Hjálpa þarf ungu fólki í meiri mæli en verið hefur

Kaupmáttur fólks á aldrinum 20–29 ára gagnvart húsnæðiskaupum lækkaði um 46% á árunum 2001–2019. Óvíst er um þróunina á næstu árum en spáð er áframhaldandi hækkun fasteignaverðs á árunum í kjölfar kófsins m.a. vegna misvægis í framboði og eftirspurn. Þegar tekin er afstaða til framlengingar á skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán ber að horfa sérstaklega til þess stór hluti ungs fólks sem steig sín fyrstu skref á fasteignamarkaði á áratugnum eftir hrun naut ekki stuðnings við fyrstu kaup skv. úrræðum stjórnvalda.

Kreppan hefur dregist á langinn og forsendur eru gjörbreyttar

Í nýlegri þjóðhagsspá Hagstofunnar er 2,6% hagvexti spáð á árinu 2021 sem er það lægsta innan OECD. Hagvaxtarspár á Íslandi fyrir árið 2021 eru þá háðar töluverðri óvissu m.a. vegna óvissu um þróun í þjónustuútflutningi. Spár um atvinnuleysi draga jafnframt upp dökka mynd af stöðunni. Mikilvægt er að stjórnvöld leiti allra leiða til að hjálpa heimilum landsins.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt