Skip to content

Nýtt sumarhús fyrir fólk með skerta hreyfigetu

Orlofssjóður BHM hefur tekið í notkun hús sem var sérstaklega hannað og byggt til að henta fólki með skerta hreyfigetu

Í sumar komu fyrstu gestirnir í sumarhúsið Brekkuskóg H 28. Húsið er nýtt og var sérstaklega hannað og byggt með fólk með skerta hreyfigetu í huga. Í húsinu eru rafknúnar gardínur, ljós, gluggar og hurðar og engir þröskuldar. Þrjú svefnherbergi eru í húsinu.

Aðgengi að bústaðnum er mjög gott. Veröndin er afar rúmgóð og hugsuð fyrir fólk sem þarf að notast við hjólastól. Rafknúin dyraopnun er á útidyrahurð og útgengt á verönd úr flestum herbergjum. Á baðherbergi er rafknúið skolsalerni með fjarstýringu og veggstoðum, auk sturtustóls með baki og örmum. Eldhúsinnréttingin er með hæðarstillanlegu eldhúsborði með vaski og eldavél. Líkt og í öllum betri sumarhúsum er heitur pottur á veröndinni og auk þess garðhúsgögn og grill.

Það er von OBHM að öll sem nýta sér þjónustu sjóðsins njóti orlofstökunnar og að nýja sumarhúsið í Brekkuskógi nýtist sem allra best.

Frekari upplýsingar eru á vef OBHM.