Ungt háskólamenntað fólk situr eftir
Kaupmáttur háskólamenntaðra hefur aukist talsvert minna en kaupmáttur annarra hópa frá 2019. Launavísitalan hækkaði allt að tvöfalt meira hjá láglaunahópum innan ASÍ og BSRB en launavísitala háskólamenntaðra með millitekjur hjá BHM og KÍ. Hætt er við að aukning kaupmáttar hjá háskólamenntuðum verði að engu á næstu misserum ef verðbólga eykst. BHM lýsir yfir þungum áhyggjum af þessari þróun.
Allt að tvöfalt meiri hækkanir hjá ASÍ og BSRB en BHM og KÍ
Samkvæmt nýrri skýrslu kjaratölfræðinefndar hækkaði launavísitalan á opinberum markaði á tímabilinu mars 2019 til júní 2021 um 24-43% hjá félagsmönnum ASÍ og BSRB, en um 15-22% hjá BHM og KÍ. Hækkanir á almennum markaði voru ívið minni eða 17-20% hjá ASÍ og BSRB samanborið við 15% hjá BHM. Munurinn er mestur hjá Reykjavíkurborg þar sem hækkanir hjá ASÍ voru 43% eða tvöfalt meiri en hækkanir hjá BHM og rúmlega tvöfaldar á við hækkanir hjá KÍ. Munurinn liggur að mestu í mismunandi áhrifum krónutöluhækkana eftir launastigi sem og styttingu vinnuvikunnar.