Greiddir eru sjúkradagpeningar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu sem nema 80% af grunni inngreiðslna í sjóðinn sl. 4 mánuði fyrir óvinnufærni, þó að hámarki 950.000 krónur í allt að 4 mánuði.
Sjúkradagpeningar eru greiddir til viðbótar við sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands. Samanlagðar skattskyldar tekjur skulu aldrei nema hærri fjárhæð en tekjutap sem til verður vegna veikinda eða slysa. Sjúkradagpeningar geta aldrei verið hærri en atvinnuleysisbætur sem fallið hafa niður. Allar skattskyldar greiðslur frá öðrum aðilum, svo sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóði, umfram 20% af grunni inngreiðslna sl. 4 mánuði koma að fullu til frádráttar dagpeningum frá sjóðnum.
Réttur til sjúkradagpeninga tekur mið af fjölda iðgjaldagreiðslna í sjóðinn sl. 4 mánuði. Þannig hefur umsækjandi sem greitt hefur verið fyrir í 3 mánuði áunnið sér rétt til sjúkradagpeningagreiðslu í 3 mánuði. Sjúkradagpeningar eru að hámarki greiddir í 3 mánuði afturvirkt miðað við umsóknardag.
Sjálfstætt starfandi félagsmenn fá greiðslur líkt og venjulegir launamenn. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félagsmanna er 2 mánuðir.
Sjóðfélagi öðlast rétt til sjúkradagpeninga að nýju eftir 6 mánaða iðgjaldagreiðslu eftir að fyrra bótatímabili lýkur. Hverjum sjóðfélaga er að hámarki greidd tvö sjúkradagpeningatímabil á hverju 10 ára tímabili.
Aðrar orsakir fjarveru
Til viðbótar við eigin veikindi eða slys er einnig hægt að sækja um sjúkradagpeninga vegna ólaunaðrar fjarveru sökum:
- Veikinda barns í allt að 3 mánuði.
- Veikinda maka í allt að 2 mánuði sem leiðir til fjarveru frá vinnu. Ekki er greitt fyrir fyrstu 10 dagana í veikindunum.
- Vegna veikinda og/eða slysa sjóðfélaga í fæðingarorlofi: Ef foreldri getur ekki annast barn sitt vegna veikinda og/eða slysa í fæðingarorlofi greiðir sjóðurinn allt að einn og hálfan mánuð á meðan fæðingarorlofi stendur. Þó er ekki greitt fyrir fyrstu 10 dagana í veikindum. Forsenda er að viðkomandi segi sig af greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði.
Félagsfólk sem fær endurhæfingarlífeyri hjá TR heldur réttindum sínum til annarra styrkja en sjúkradagpeninga.
Réttindi sjóðfélaga gagnvart öðrum sjóðum BHM á sjúkradagpeningatímabili
Starfsmenntunarsjóður BHM: Sjóðfélagar viðhalda áunnum réttindum.
Starfsþróunarsetur háskólamanna: Sjóðfélagar viðhalda áunnum réttindum.
Orlofssjóður BHM: Sjóðfélagar sem nutu fullra réttinda í Orlofssjóði áður en dagpeningagreiðslur hófust skulu eiga óskertan rétt í Orlofssjóði meðan á dagpeningagreiðslum stendur.
Umsóknir
Sótt er um inni á Mínum síðum BHM, þar má m.a. nálgast upplýsingar um nauðsynleg gögn.
Spurt og svarað um sjúkradagpeninga
Kynntu þér spurningar og svör varðandi sjúkradagpeninga Sjúkrasjóðs.