Hagkorn BHM - veikindaforföll og íslenskur vinnumarkaður

Streita, veikindaforföll og íslenskur vinnumarkaður: Hvað segir reynsla Norðurlanda – og hvað þurfum við að gera hér heima?

Veikindaforföll hafa aukist umtalsvert á Norðurlöndum á undanförnum árum og er ástæðan að miklu leyti rakin til streitu og geðrænna orsaka. Nýjustu gögn frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku draga upp skýra og samræmda mynd: Álag, mannekla og sífellt flóknara og kröfuharðara vinnuumhverfi hefur víðtæk áhrif á starfsfólk í öllum geirum. Áhrifin eru sérstaklega áberandi á meðal kvenna og háskólamenntaðra sérfræðistétta. Það er hópur sem BHM þekkir mjög vel. Þessi þróun undirstrikar nauðsyn þess að líta á veikindaforföll ekki aðeins sem einstaklingsbundið heilbrigðisvandamál, líkt og nýleg könnun Samtaka atvinnulífsins gefur til kynna, heldur sem kerfislægt vandamál sem kallar á heildstæða greiningu og markviss viðbrögð.

Það sem gerir okkur erfitt fyrir í þeim efnum er að á Íslandi skortir gögn til að greina raunverulega stöðu þessara mála með sambærilegri nákvæmni og á hinum Norðurlöndunum. Þar liggja bæði veikleiki og tækifæri; veikleiki sem takmarkar getu okkar til að dýpka umræðuna og tækifæri til að skapa traustari grunn fyrir opinbera stefnumótun og bætt starfsumhverfi.

Noregur og Svíþjóð sýna okkur hvert stefnir – ef ekkert er að gert

Samkvæmt gögnum Hagstofu Noregs (SSB) eru veikindaforföll þar í landi meðal þeirra hæstu sem þekkjast í Evrópu. Á þriðja ársfjórðungi 2025 nam heildarhlutfall veikindaforfalla 6,48% meðal allra launamanna á aldrinum 16–69 ára.

Kynjamunur er verulegur; hlutfallið var 8,17% hjá konum en 5,04% hjá körlum. Mikil aukning geðrænna og streitutengdra fjarvista er talin helsta skýringin á þessari þróun. Rannsóknir STAMI og OsloMet sýna að miklar kröfur, óljósar væntingar og skortur á stuðningi eru helstu orsakavaldar. Þetta er því ekki eingöngu einstaklingsbundið vandamál heldur á það sér einnig dýpri rætur í skipulagi og starfsaðstæðum starfsfólks, og í mannauðsstjórnun.

Í Svíþjóð hafa veikindi vegna streitu þrefaldast á rúmum áratug. Samkvæmt upplýsingum SACO (heildarsamtaka háskólamenntaðra) jukust þau um 13,6% að meðaltali á ári frá 2010, fóru úr 7% allra veikinda í 22% árið 2025. Um 80% þeirra sem verða fyrir streitutengdum veikindum eru konur og háskólamenntað starfsfólk, einkum þeir sem búa við mikla samskipta- og þjónustubyrði, svo sem ráðgjafar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og starfsfólk í mennta- og heilbrigðisgeiranum, m.ö.o. starfsfólk í framlínu Þetta eru einmitt þær starfsstéttir sem BHM hefur ítrekað bent á að hafi ekki lengur burði til að standa undir stöðugt vaxandi kröfum.

Stóra myndin: Streita er orðin stærsti einstaki áhættuþátturinn

Þegar litið er yfir Evrópu í heild kemur skýrt í ljós að vinnutengd streita, kvíði og þunglyndi eru orðin eitt stærsta heilsufarsvandamál starfandi fólks. Rannsóknir sýna að um 27% starfsfólks upplifir streitu, kvíða eða þunglyndi sem tengist starfinu og að um 60% allra tapaðra vinnudaga í Evrópusambandinu megi rekja beint til vinnustress og annarra félags‑ og geðrænna þátta. Vinnutengd streita er því orðin helsta orsök fjarvista frá vinnu, með tilheyrandi skerðingu á starfsánægju, erfiðleikum við að halda uppi góðum starfsanda og verulegu framleiðnitapi. Allt bendir til þess að yngra starfsfólk, ekki síst konur, standi frammi fyrir meiri geðrænum áskorunum en nokkru sinni fyrr. Helstu drifkraftarnir eru tímapressa, auknar kröfur, mikið vinnuálag og óöryggi í starfi.

Ísland: engin samræmd gögn

Ólíkt því sem þekkist á Norðurlöndum skortir hér á landi samræmda gagnasöfnun og sameiginleg viðmið um ástæður og eðli veikindaforfalla og hvernig þróunin skiptist eftir starfsstéttum, starfshlutfalli og öðrum þáttum. Reykjavíkurborg hefur gert tilraunir til að bæta skráningu slíkra upplýsinga en á landsvísu liggja engin sambærileg heildargögn fyrir. Ríkið, sem er stærsti launagreiðandi landsins, heldur ekki utan um gögn um veikindaforföll starfsfólks með miðlægum hætti og upplýsingar um laun í veikindum eru ekki tilgreind á launaseðlum starfsfólks. Þetta er sérlega bagalegt fyrir opinbera stefnumótun og samtal hagaðila, ekki síst þegar álag í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfum eykst hratt og ákvarðanir þurfa að byggjast á traustri greiningu á stöðu og þróun vinnumarkaðarins.

Hvað þarf að gera?

1. Samræmd gagnasöfnun á landsvísu

Forsenda stefnumótunar og markvissra úrbóta er að fyrir liggi skýr og áreiðanleg mynd af stöðunni. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem safnar ekki samræmdum og kerfisbundnum gögnum um veikindaforföll starfsmanna. Þessi skortur er í andstöðu við meginreglur um gagnsæi, vandaða stjórnsýslu og upplýsta ákvarðanatöku. Úr þessu þarf að bæta hið fyrsta.

2. Sterkari vinnuvernd og forvarnir

Kanna þarf hvort streita í sérfræðistörfum stafi af kerfisbundinni þróun frekar en einstaklingsbundnum þáttum og hvort það kalli á viðeigandi viðbrögð frá samfélaginu, atvinnurekendum og stéttarfélögum. Vinnuveitendur, ekki síst hjá hinu opinbera þurfa skoða skipulag vinnu, mannaflaþörf, kröfur og stuðning á vinnustöðum, í ljósi þeirra áhættuþátta sem að framan er lýst.

3. Snemmtæk íhlutun og endurkoma á vinnumarkað.

VIRK styður einstaklinga sem hafa misst starfsgetu vegna veikinda eða álags og hjálpar þeim að ná aftur virkni á vinnumarkaði með markvissri, einstaklingsmiðaðri starfsendurhæfingu. Vegna þess að VIRK byggir á því að einstaklingar leiti sjálfir til þjónustunnar virkjast úrræðin síðar en í svipuðum kerfum margra nágrannalanda.

Í Noregi er fyrir hendi traust umgjörð sem styður við starfsfólk, sem hefur verið fjarverandi vegna veikinda, til að snúa aftur til starfa eða viðhalda tengslum við vinnumarkaðinn. Þessu ferli er fyrst og fremst stýrt af NAV (vinnu- og velferðarstofnun Noregs) sem jafnframt heldur utan um greiðslu veikindalauna þegar veikindi hafa varað lengur en 16 daga. Kerfið byggir á þeirri meginreglu að vinna geti verið heilsueflandi og að snemmtæk, samræmd íhlutun dragi úr hættu á varanlegri útilokun frá vinnumarkaði.

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins mættu horfa til reynslu Norðmanna og skoða hvaða þættir í snemmtækri meðferð og endurkomu einstaklinga á vinnumarkað gætu nýst hér á landi. Einnig þarf að fylgjast með þróun forvarnarverkefnis VIRK, sem miðar að því að grípa fólk fyrr í ferlinu, strax og merki um minnkandi starfsgetu gera vart við sig.

4. Aðgerðir til að draga úr kynjamun

Konur eru frekar útsettar fyrir streitu- og álagstengdum veikindum en karlar og þær leita sér frekar aðstoðar en karlar. Tölur VIRK gefa þetta skýrt til kynna. Mikilvægt er að taka mið af þessum staðreyndum þegar áætlanir eru gerðar um þjónustu og stuðning við það fólk sem hlut á að máli. Einnig er mikilvægt að við gerð og eftirfylgni mannauðsstefnu á vinnumarkaði sé horft til þeirrar þekkingar sem þó er til staðar varðandi þessa þætti.

Lokaorð

Ísland þarf að fylgja fordæmi nágrannaþjóðanna með því að byggja upp samræmda gagnasöfnun og móta viðeigandi úrræði til að draga úr skaðlegum áhrifum þessarar þróunar. Hér er um að ræða skýra skyldu gagnvart starfsfólki, hagkerfinu í heild og framtíð opinberrar þjónustu.

Í því samhengi verður einnig að líta til alþjóðlegrar þróunar, þar sem fjölgun á vinnumarkaði dregst verulega saman og hlutfallsleg viðbót nýrra einstaklinga á vinnumarkaði minnkar ár frá ári. Skýrslur alþjóðastofnana á borð við WEF, ILO og OECD sýna að skortur á öflugri vinnuvernd, skýrum úrræðum til stuðla að endurkomu til starfa og markvissum forvörnum gegn streitu og veikindum skapi raunverulega hættu á framleiðnitapi, þekkingarleka og rýrnun mannauðs. Þetta á sérstaklega við á tímum þegar ríður á að samfélög og hagkerfi haldi í sinn dýrmæta mannauð, hvort heldur um er að ræða fólk sem er tímabundið eða um lengri tíma á vinnumarkaði.

BHM ásamt aðildarfélögum sínum er tilbúið í samtal við stjórnvöld og aðra hagaðila um leiðir til að bæta gagnaöflun um álag og streitu í starfi, um veikindaforföll og endurskoðun og eflingu úrræða sem styðja einstaklinga og vinnustaði við að efla farsæla þátttöku á vinnumarkaði.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt