
Við í BHM fögnum öllum skrefum sem raunverulega bæta stöðu ungs fólks. En það verður að segjast eins og er að erfitt er að átta sig á hvort þessar tillögur stjórnvalda geri það. Til þess er of margt óljóst. Húsnæðismarkaðurinn er orðinn óhagkvæmur, flókinn og ósanngjarn gagnvart ungu fólki sem er að hefja starfsferil og fjölskyldulíf að loknu námi. Það er ekki eðlilegt að ungt fólk þurfi annaðhvort að reiða sig á efnaða foreldra eða búa við fjárhagslegan óstöðugleika til að komast inn á markaðinn.
Húsnæði sem réttindi
Húsnæðisvandinn snýst ekki bara um vaxtastig eða einstaka lánalínur, hann er kerfislægur. Við þurfum að hætta að tala um húsnæði sem fjárfestingu og líta á það sem grundvallarréttindi.
Í dag er nánast ómögulegt fyrir fyrstu kaupendur að taka húsnæðislán án þess að stór hluti þess sé verðtryggður. Eftir dóm Hæstaréttar um vexti drógu bankarnir verulega úr framboði slíkra lána. Þótt einhverjar breytingar hafi nú orðið í þeim efnum þá eru kjörin lakari, lánstíminn styttri og skilmálarnir flóknari. Framboð raunhæfra og stöðugra lánakosta hefur minnkað.
Þannig stendur ungt fólk áfram í sömu sporum – með of háa greiðslubyrði, ófyrirsjáanlega lánaleið og engar raunverulegar lausnir í sjónmáli. Ef stjórnvöld ætla í alvöru að styðja ungt fólk inn á húsnæðismarkað þurfa þau að horfa á rót vandans; ofurvexti og ótryggt lánaumhverfi sem gerir heimili að veðmálum á verðbólgu. Er þetta virkilega það besta sem við getum boðið ungu fólki á Íslandi árið 2025?
Réttlæti á húsnæðismarkaði krefst nýrra leiða
Húsnæðisverð hefur hækkað mikið undanfarin ár. Eftirspurn er meiri en framboð, og fjársterkir aðilar hafa keypt íbúðir til útleigu. Á meðan bíður ungt fólk á leigumarkaði – ótryggt, með litla möguleika á að safna fyrir útborgun.
Í mörgum Evrópulöndum hefur verið brugðist markvisst við sambærilegri stöðu. Á Spáni og Ítalíu eru hærri fasteignagjöld lögð á aðra og þriðju eign, skattar á leigutekjur hækka eftir fjölda íbúða og jafnvel er lagt álag á auðar eignir. Markmiðið er skýrt: að draga úr spákaupmennsku og losa húsnæði inn á markaðinn fyrir almenning.
Á Norðurlöndunum hefur verið byggt upp sterkt félagslegt húsnæðiskerfi með leiguþökum og réttindum leigjenda sem tryggja jafnræði og stöðugleika. Þar er húsnæðismarkaðurinn ekki drifinn áfram af fjármagnshagnaði heldur félagslegri ábyrgð. Ísland þarf að sækja fyrirmyndir þangað, ekki í spákaupmennsku á fasteignamarkaði.
Við í BHM viljum sjá íslensk stjórnvöld sýna sama kjark. Við vitum hvað virkar: það er hægt að draga úr spákaupmennsku og bæta aðgengi ungs fólks að húsnæði. Útfærsla stjórnvalda á inntaki húsnæðispakkans skiptir þar öllu máli. Aðgerðirnar þurfa að vera raunhæfar, varanlegar og fjárhagslega haldbærar. Annars sitjum við áfram uppi með kerfi sem viðheldur bæði ójöfnuði og verðbólgu. Það viljum við ekki, því hljómar ákall til stjórnvalda um að við stöndum undir samfélagslegri ábyrgð og tryggjum öllum rétt til öruggs heimilis.
Tengdar færslur
12. nóvember 2025Áhugaverð skýrsla um íslenska embættismannakerfið
10. nóvember 2025Nýr vefur Orlofssjóðs BHM opnar 13. nóvember kl. 09:00
10. nóvember 2025Vel sótt trúnaðarmannanámskeið BHM
7. nóvember 2025LÍS rannsakar áhrif nýja námslánakerfisins í samstarfi við BHM
7. nóvember 2025Landsréttur staðfestir brot á jafnlaunareglu
4. nóvember 2025Bætt staða stúdenta - en verkefninu ekki lokið
