Ávinningur af háskólamenntun stenst ekki samanburð við önnur lönd

Ný rannsókn sýnir að arðsemi háskólanáms á Íslandi hefur aldrei mælst lægri.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir BHM, eru áhyggjuefni þar sem þær benda til þess að menntun skili sér í sífellt minni ávinningi fyrir einstaklinga.

Arðsemi háskólanáms felur í sér samanburð á kostnaði við nám (tapaðar tekjur á námstíma og bein útgjöld) og þeim fjárhagslega ávinningi sem háskólamenntun skilar yfir starfsævina, samanborið við þau sem einungis ljúka framhaldsskólaprófi. Þróun arðsemi háskólamenntunar á Íslandi hefur verið neikvæð á undanförnum árum og hefur hún dregist saman um helming frá fjármálahruninu 2008. Fyrir bakkalárgráðu hefur arðsemi lækkað úr 10% í 5% og fyrir meistaragráðu úr 12% í 6%. Þetta er lægsta arðsemi sem mælst hefur á undanförnum 37 árum.

Þessi þróun sýnir að fólk fær minna fyrir menntun sína en það gerði fyrir fjármálahrunið.

Arðsemi náms á Íslandi er helmingur af meðaltali OECD-ríkja

Séu niðurstöður skýrslu Hagfræðistofnunar bornar saman við önnur OECD-ríki er samanburður sláandi. Hér á landi mælist arðsemi háskólanáms 8% hjá körlum og 9% hjá konum, en að meðaltali í OECD-ríkjum er arðsemin að jafnaði tvöfalt hærri, eða um 15% hjá körlum og 18% hjá konum. Það þýðir að fjárfesting í menntun skilar sér síður hér á landi en í öðrum OECD-ríkjum, sem dregur úr hvata til náms og getur til lengri tíma veikt bæði vinnumarkað og innviði samfélagsins.

Launamunur kynjanna eykst með aldri

Ávinningur fólks af háskólanámi er mældur í mun á atvinnutekjum háskólamenntaðra og framhaldsskólamenntaðra eftir skatt. Þótt hlutfallslegur ávinningur af háskólanámi virðist meiri hjá konum eru tekjur þeirra almennt lægri en karla, óháð námi eða aldri. Háskólamenntaðar konur þéna að jafnaði á við karla með stúdentspróf yfir alla starfsævina.

Árið 2022 fengu háskólamenntaðar konur að meðaltali 83 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem karlar fengu greiddar. Launamunurinn birtist snemma á starfsævinni og eykst með aldrinum óháð námsgráðu. Meðallaun karla eru 16% hærri en kvenna á aldrinum 25-34 ára en verða 26% hærri hjá 45-64 ára. Þessi munur hefur áhrif á lífsgæði, lífeyrisréttindi og efnahagslegt sjálfstæði kvenna.

Unga kynslóðin tapar mest

Ávinningur af háskólanámi hefur sveiflast niður á við samkvæmt mælingum 1986-2022. Nýjustu tölur sýna að meðalávinningur háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára er nú 27%, sem er lægsta gildi á 37 árum. Árið 2008 mældist ávinningurinn 43%, jafngildir lækkunin nær 40%.

Unga kynslóðin kemur verst út. Ávinningur háskólamenntaðra á aldrinum 25-34 ára hefur minnkað úr 48% árið 2008 niður í 21% árið 2022 sem jafngildir tæplega 60% samdrætti á 15 árum. Þróunin er alvarleg þar sem fyrstu árin á vinnumarkaði skipta sköpum fyrir framtíðartekjur, lífeyrisréttindi og húsnæðiskaup.

Á sama tíma hefur ávinningur eldri kynslóða haldist hærri. Hjá 45-64 ára hópnum mælist hann enn yfir 30%, sem þýðir að ungt fólk fær nú aðeins um helming af þeim fjárhagslega ávinningi sem eldri kynslóðir nutu á sínum yngri árum.

Hlutfallslegur ávinningur virðist meiri hjá konum (28%) en körlum (19%), en það skýrist af því að tekjur kvenna eru almennt mun lægri. Hér er verið að bera saman tekjur háskólamenntaðra kvenna við tekjur kvenna með próf úr framhaldsskóla. Tekjur kvenna með háskólapróf eru hins vegar sambærilegar við tekjur karla sem aðeins hafa lokið grunn- eða framhaldsskólaprófi, á fyrstu árunum á vinnumarkaði, þ.e. 25-34 ára.

Menntunarstig á Íslandi undir alþjóðlegu meðaltali

Árið 2023 höfðu 43,5% Íslendinga á aldrinum 25-34 ára lokið háskólaprófi. Hlutfallið er undir meðaltali OECD og lægra en í flestum nágrannaríkjum. Til samanburðar eru Suður Kórea (70%), Kanada (67%) og Japan (65%) með hæsta menntunarstigið innan OECD. Norðurlöndin standa einnig framar en Ísland; Noregur með 57%, Svíþjóð 54% og Danmörk 49%. Ísland er í 23. sæti af 35 ríkjum innan OECD.

Munurinn á fjölda háskólamenntaðra kvenna samanborið við karla er mestur á Íslandi meðal OECD-ríkja. Nær tvöfalt fleiri konur en karlar á aldrinum 25-34 ára hafa lokið háskólanámi; 58% kvenna í samanburði við 31% karla. Þessi munur er nær tvöfalt meiri en í Noregi og Danmörku, og rúmlega 2,5 sinnum hærri en í Svíþjóð og meðaltali í OECD-ríkjum.

Þetta bendir til þess að íslenskir karlar sjái minni fjárhagslegan ávinning af háskólanámi en jafnaldrar þeirra í öðrum OECD löndum. Lítill launamunur eftir að háskólanámi lýkur er vafalaust hluti af skýringunni en einnig það að íslenskir karlar hafa góða atvinnumöguleika án háskólagráðu. Í öllu falli þá er hlutfall karla með háskólamenntun hér á landi meðal þess lægsta sem gerist í OECD-ríkjum.

Ávinningur af háskólamenntun eftir námsgreinum

Ávinningur af menntun er mjög breytilegur eftir námsgreinum. Hann er mestur hjá þeim sem hafa hæstar tekjur, það eru læknar, verkfræðingar og lögfræðingar, en minnstur hjá þeim sem ljúka listnámi, leikskólakennaranámi eða námi á sviði meðferðar og endurhæfingar. Í sumum tilfellum eru tekjur þessara hópa jafnvel lægri en hjá fólki sem hefur aðeins lokið stúdentsprófi. Þetta ber vott um vanmat á námi og mikilvægi starfanna sem um ræðir og getur haft þau áhrif að fólk sjái ekki hag í að mennta sig á sviðum sem þó skipta samfélagið miklu.

Samfélagsleg áhrif minnkandi ávinnings af námi

Niðurstöður skýrslu Hagfræðistofnunar vekja áhyggjur þar sem lægri arðsemi og minnkandi ávinningur af námi geta dregið úr hvata til náms og leitt til skorts á hæfu starfsfólki í ýmsum mikilvægum starfsgreinum. Augljóst er að slíkt hefur neikvæð áhrif á grunnstoðir samfélagsins, þar á meðal heilbrigðis- og velferðarþjónustu, menntakerfi og almennt á samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagsæld þjóðarinnar til framtíðar litið.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt