Ávinningur af háskólanámi hefur sveiflast niður á við samkvæmt mælingum 1986-2022. Nýjustu tölur sýna að meðalávinningur háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára er nú 27%, sem er lægsta gildi á 37 árum. Árið 2008 mældist ávinningurinn 43%, jafngildir lækkunin nær 40%.
Unga kynslóðin kemur verst út. Ávinningur háskólamenntaðra á aldrinum 25-34 ára hefur minnkað úr 48% árið 2008 niður í 21% árið 2022 sem jafngildir tæplega 60% samdrætti á 15 árum. Þróunin er alvarleg þar sem fyrstu árin á vinnumarkaði skipta sköpum fyrir framtíðartekjur, lífeyrisréttindi og húsnæðiskaup.
Á sama tíma hefur ávinningur eldri kynslóða haldist hærri. Hjá 45-64 ára hópnum mælist hann enn yfir 30%, sem þýðir að ungt fólk fær nú aðeins um helming af þeim fjárhagslega ávinningi sem eldri kynslóðir nutu á sínum yngri árum.
Hlutfallslegur ávinningur virðist meiri hjá konum (28%) en körlum (19%), en það skýrist af því að tekjur kvenna eru almennt mun lægri. Hér er verið að bera saman tekjur háskólamenntaðra kvenna við tekjur kvenna með próf úr framhaldsskóla. Tekjur kvenna með háskólapróf eru hins vegar sambærilegar við tekjur karla sem aðeins hafa lokið grunn- eða framhaldsskólaprófi, á fyrstu árunum á vinnumarkaði, þ.e. 25-34 ára.