
Reglur Reykjavíkurborgar nr. 1/1990 og 2/1990, sem vísað er til í kjarasamningum, fela í sér að aðeins þeir sem teljast hafa starf sitt sem „aðalstarf“ njóta fullrar tryggingaverndar. Þetta hefur í reynd leitt til þess að starfsmenn í hlutastörfum geta verið útilokaðir frá bótum vegna slysa. Sama fyrirkomulag gildir hjá ríkinu samkvæmt reglum nr. 30/1990 og 31/1990.
BHM, ASÍ og BSRB hafa ítrekað krafist breytinga á þessum reglum, en án árangurs. Þann 17. febrúar síðastliðinn kærðu samtökin íslenska ríkið til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna brota á tilskipun 97/81/EC um hlutastörf, sem innleidd voru hér á landi með lögum nr. 10/2004. ESA hefur nú óskað eftir skýringum frá ríkinu og málið er til meðferðar hjá stofnuninni.
BHM leggur áherslu á að fullyrðingar um samþykki stéttarfélaga fyrir mismunun séu rangar. Þvert á móti hafa þau staðið vörð um réttindi félagsfólks í hlutastörfum og leitað réttar þess með formlegri kvörtun til ESA.





