
Óvissa ríkir nú á íbúðalánamarkaði eftir dóm Hæstaréttar í svonefndu vaxtamáli sem kveðinn var upp 14. október 2025. Í kjölfar dómsins hafa allir þrír viðskiptabankarnir, Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki, tilkynnt að þeir endurskoði lánaskilmála vegna lána með breytilegum vöxtum. Sumir þeirra hafa jafnframt gert hlé á veitingu slíkra lána á meðan sú endurskoðun stendur yfir.
Samkvæmt tilkynningum bankanna hefur dómurinn skapað lagalega óvissu um túlkun og lögmæti skilmála um breytilega vexti, bæði í verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Þangað til Hæstiréttur hefur lokið afgreiðslu fleiri sambærilegra mála liggur ekki fyrir endanlegt mat á réttaráhrifum dómsins.
Fyrstu kaupendur finna þegar fyrir áhrifum
Fram hafa komið fregnir af því að fyrstu kaupendur eigi nú erfiðara með að fá fjármögnun, jafnvel þótt þeir standist greiðslumat. Á sama tíma hafa lífeyrissjóðirnir, sem þegar höfðu tekið yfir stóran hluta íbúðalánamarkaðarins, styrkt stöðu sína enn frekar. Um tveir þriðju hlutar íbúðalána eru nú verðtryggð, og er líklegt að hlutfall lífeyrissjóða á markaðnum aukist enn á meðan bankarnir endurskoða lánaskilmála sína.
Líklegt að kjör á breytilegum vöxtum versni
Til lengri tíma litið telja margir að bankarnir muni þurfa að leggja aukið álag á breytilega vexti, sem gæti leitt til þess að kjör á slíkum lánum, hvort sem þau eru verðtryggð eða óverðtryggð, verði lakari en áður. Slíkt gæti dregið úr samkeppni á íbúðalánamarkaði og haft áhrif á kjör heimilanna, einkum ungs fólks og fyrstu kaupenda.
Samhliða þessu standa yfir aðrar breytingar sem einnig geta haft áhrif á fjárhagsstöðu heimila, svo sem afnám vaxtabóta og fyrirhuguð niðurfelling heimildar til að greiða inn á lán með séreignarsparnaði.
BHM fylgist náið með þróuninni
BHM mun áfram fylgjast náið með framvindu málsins og meta hvaða áhrif viðbrögð bankanna og hugsanlegur samdráttur á íbúðalánamarkaði kunna að hafa á félagsfólk aðildarfélaga BHM. Það á meðal annars við um áhrif á aðgengi að íbúðalánum, þróun vaxta og almenna stöðu á húsnæðismarkaði.
Þessi eftirfylgni er hluti af reglubundinni vöktun BHM á kaupmætti, verðlagi og húsnæðiskjörum háskólamenntaðra á vinnumarkaði. Markmiðið er að tryggja að efnahagslegar forsendur félagsfólks versni ekki vegna ákvarðana sem teknar eru utan við svið kjarasamninga og að viðbrögð stjórnvalda og fjármálastofnana verði metin út frá réttlátri og samfélagslega ábyrgri nálgun.