BHM leggur áherslu á menntun, nýsköpun og sjálfbærni í atvinnustefnu Íslands

BHM hefur skilað umsögn um áform stjórnvalda um atvinnustefnu Íslands til ársins 2035.

Í umsögninni tekur BHM jákvætt í framtíðarsýn stjórnvalda um fjölbreytt og arðbært atvinnulíf byggt á nýsköpun, sjálfbærni og samkeppnishæfni, en leggur jafnframt áherslu á mikilvæga þætti sem tryggja þurfi til að markmiðin nái fram að ganga. BHM minnir á að samtök launafólks gegni lykilhlutverki í mótun atvinnustefnu og að samráð við þau verði að vera markvisst og raunhæft. Félagsfólk BHM starfar á öllum sviðum samfélagsins og háskólamenntað vinnuafl er forsenda öflugs atvinnulífs, nýsköpunar og framleiðni.

Sjálfbær þróun og menntun lykilatriði

BHM leggur áherslu á að atvinnustefnan verði byggð á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar og að ekki verði fjallað um hagvöxt án þess að á sama tíma horft sé til samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa. Þá þurfi að efla háskóla og rannsóknir og snúa við niðurskurði undanfarinna ára til að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins til framtíðar.

Framtíðarstörf og skapandi greinar

Í umsögninni bendir BHM á að atvinnustefnan verði að endurspegla vaxandi vægi atvinnugreina sem byggja á menntun, rannsóknum, sköpun og nýrri tækni. Sérstök athygli er vakin á því að skapandi greinar séu lykilþáttur í verðmætasköpun og útflutningstekjum víða um heim en fái ekki nægilega umfjöllun í áformaskjalinu.

Kjör og starfsþróun háskólamenntaðra lykilatriði

Metnaðarfull framtíðarsýn atvinnustefnu verður ekki að veruleika nema kjör og starfsþróun háskólamenntaðra starfsmanna standist alþjóðlegan samanburð. Að öðrum kosti blasir við að Ísland tapi samkeppnisforskoti sínu í baráttunni um hæft starfsfólk.

BHM lýsir yfir vilja til að vinna áfram með stjórnvöldum að mótun atvinnustefnu sem byggir á menntun, rannsóknum og sjálfbærni, og leggur áherslu á að þessir þættir verði kjarninn í þeirri stefnu sem á að leiða íslenskt atvinnulíf til 2035.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt