Biðla til stjórnvalda að stöðva fyrirhugaða brottvísun

Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþálfafélag Íslands og Þroskaþjálfafélag Íslands hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu vegna væntanlegrar brottvísunar Yazan Tamimi úr landi. Félögin biðla til íslenskra stjórnvalda að stöðva fyrirhugaða brottvísun.

Mynd úr safni BHM sem tengist ekki yfirlýsingu þessara þriggja fagfélaga í heilbrigðisgeiranum

Yfirlýsing vegna væntanlegrar brottvísunar Yazan Tamimi

Þroskaþjálfafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands og Iðjuþjálfafélag Íslands taka heils hugar undir yfirlýsingu Landsamtakanna Þroskahjálpar frá 16. júní síðastliðnum þar sem skorað er á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína um að senda úr landi Yazan Tamimi, 12 ára palestínskan dreng með Duchenne hrörnunarsjúkdóminn.

Félögin biðla til íslenskra stjórnvalda um að endurskoða ákvörðun sína um að senda Yazan Tamimi, 12 ára palestínskan dreng með Duchenne hrörnunarsjúkdóminn úr landi. Það er nauðsynlegt að skoða ítarlega stöðu Yazans og fjölskyldu hans og taka tillit til fötlunar drengsins og þeirrar staðreyndar að vegna Duchenne sjúkdómsins þarf hann tryggar aðstæður, stöðuga og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Að senda Yazan úr landi og í algjöra óvissu er afar ómannúðlegt og brýtur í bága við þau réttindi og vernd sem fötluð börn eiga að njóta samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Félögin vilja beina því til stjórnvalda að þau virði bæði samninginn um réttindi fatlaðs fólks og barnasáttmálann í hvívetna, en ljóst er að það var ekki gert við þessa ákvörðun. Óvissan sem hann og fjölskylda hans búa við eykur á einkennin sem fylgja Duchenne og veldur gríðarlegri streitu og álagi á fjölskylduna. Duchenne hrörnunarsjúkdómur er alvarlegur, framsækinn og ólæknandi vöðvasjúkdómur sem hefur í för með sér vaxandi vöðvarýrnun og skerta hreyfigetu. Börn með þennan sjúkdóm þurfa stöðuga og sérhæfða læknisþjónustu auk hjálpartækja og þjálfunar, sem alla jafna er einungis aðgengileg á Norðurlöndum.

Að senda fatlað barn með Duchenne vöðvarýrnunarsjúkdóm úr landi þar sem ekki er tryggð viðeigandi meðferð og heilbrigðisþjónusta er alvarlegt brot á mannréttindum þess.

Laufey Elísabet Gissurardóttir formaður Þroskaþjálfafélags Íslands
Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags íslands
Þóra Leósdóttir formaður Iðjuþjálfafélags Íslands

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt