
Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga
Í yfirlýsingu félagsins, sem birt var í dag, kemur fram að það séu vonbrigði að í tillögum spretthóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins sé ekki gert ráð fyrir aðgerðum til að bæta kjör og vinnuaðstæður geislafræðinga – heldur einungis sagt að það þurfi að skoða málið nánar.
Spretthópur leggur til lengri opnunartíma
Á geislameðferðardeild Landspítalans eru nú aðeins tíu af fimmtán stöðugildum geislafræðinga mönnuð. Félagið bendir á að þetta hafi skapað óásættanlegt álag sem leitt hefur til veikinda og yfirvofandi neyðarástands í þjónustunni. Þrátt fyrir það leggur spretthópurinn til að opnunartími deildarinnar verði lengdur til kl. 19:00 í nokkra mánuði, sem myndi þyngja vinnuálag enn frekar.
„Það skýtur skökku við að ætla núverandi starfsfólki að vinna enn meira þegar deildin er þegar undirmönnuð á venjulegum opnunartíma hennar,“ segir í yfirlýsingunni.
Kallað eftir raunhæfum aðgerðum og betri starfskjörum
Félagið undirstrikar að öryggi sjúklinga verði ávallt að vera í forgangi og að lausnir sem byggja á yfirvinnu séu hvorki sjálfbærar né öruggar. Ef ekki tekst að bæta kjör og starfsskilyrði fagfólksins verði ekki unnt að tryggja stöðuga þjónustu eða nýta þau tæki sem þegar eru til staðar eða fyrirhuguð.