
Afleiðingar stafræns kynferðisofbeldis eru þær sömu og afleiðingar annarra kynferðisbrota, en skýrar vísbendingar eru um stigmögnun alvarlegustu afleiðinganna eftir því sem tækninni fleygir fram og ýtir undir hugaróra þeirra sem beita ofbeldinu. Þess vegna liggur okkur á, við höfum ekki undan að átta okkur á tækninni og því sem hún gerir kleift. Því reynist okkur erfitt að vernda þau sem við þurfum að vernda, hvort sem um er að ræða okkar nánasta fólk, börnin okkar inni á heimilunum og í skólunum, eða uppfræða þau sem við berum ábyrgð gagnvart, t.d. á vinnustað eða öðrum samfélagslegum vettvangi. Löggjafinn á líka í vandræðum með að bregðast við og setja upp varnir með breyttri löggjöf, þó þingmenn séu allir af vilja gerðir þá eru tækniframfarirnar alltaf feti framar.
Í skjóli nafnleyndar og refsileysis
Ofbeldi af því tagi sem 16 daga átakið fjallar um er snúið viðfangs, en viðurkennt að áríðandi sé að finna leiðir til að sporna við því. Ofbeldið er framkvæmt á netinu, gegnum samfélagsmiðla, stefnumótasíður og smáforrit. Oft dyljast gerendurnir þar sem netið gerir fólki kleift að athafna sig í skjóli nafnleyndar og ýmis tilvik eru þannig að hegningalög ná ekki yfir þau. Þannig viðgengst ofbeldið í skjóli nafnleyndar og refsileysis.
Um er að ræða djúpfalsanir á efni, óvelkomnar dreifingar á persónulegu efni sem aldrei var ætlað til dreifingar og óumbeðnar sendingar á kynferðislegu efni. Nýleg bresk tölfræði sýnir ógnvekjandi niðurstöður, en samkvæmt henni hefur um það bil ein af hverjum þremur stúlkum á aldrinum 12-18 ára fengið sendar óumbeðnar myndir af kynfærum karla. Bresk stjórnvöld hafa gripið til aðgerða og breytt lögum með það að markmiði að tryggja öruggara netumhverfi og veita fólki, ekki síst konum, sterkari vernd í stafrænu rými.






