Evrópuþingið hefur skorað á framkvæmdastjórn ESB til að leggja fram sérstaka tilskipun um notkun gervigreindar í vinnuumhverfi starfsfólks. Markmið ályktunarinnar þingsins þann 17. desember er að settar verði sameiginlegar evrópskar reglur sem tryggja að tækniframfarir á vinnumarkaði nýtist fólki, stuðli að bættum starfsskilyrðum og verndi grundvallarréttindi launafólks í samræmi við evrópskan vinnurétt og alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar.
Gervigreind í þágu fólks – ekki öfugt
Evrópuþingið leggur ríka áherslu á að gervigreind og kerfi sem notuð eru til sjálfvirkrar ákvarðanatöku á vinnustöðum geri ráð fyrir raunverulegri aðkomu starfsfólks, séu gagnsæ og notuð af ábyrgð. Bent er á að slík kerfi séu þegar orðin útbreidd, meðal annars við ráðningar, skipulag vinnutíma, frammistöðumat og ákvarðanir um starfslok, oft án þess að starfsfólk hafi fullnægjandi upplýsingar eða raunhæfa möguleika til að hafa áhrif.
Í ályktuninni er jafnframt varað við auknu vinnuálagi, stöðugu stafrænu eftirliti, hættu á mismunun og neikvæðum áhrifum á heilsu starfsfólks. Á sama tíma er undirstrikað að með skýrum og bindandi lagaramma geti gervigreind einnig stuðlað að betri vinnuskilyrðum, auknu öryggi, meiri skilvirkni og nýsköpun.
Evrópuþingið kallar eftir skýrum rétti starfsfólks til upplýsinga og skýringa um notkun slíkra kerfa, skyldu til samráðs við stéttarfélög áður en gervigreindarkerfi eru tekin í notkun eða breytt, og banni við sérstaklega íþyngjandi eftirliti, svo sem rýni á tilfinningum fólks.
Næstu skref
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú þrjá mánuði til að svara beiðni þingsins. Svarið skal annaðhvort fela í sér upplýsingar um þau skref sem framkvæmdastjórnin hyggst taka, eða rökstuðning fyrir því hvers vegna hún hafni því að leggja fram frumkvæði í samræmi við beiðni þingsins.
Þýðing fyrir Ísland
Að mati BHM er ályktunin mikilvægt skref í átt að skýrara og heildstæðara regluverki um gervigreind á vinnustöðum. Verði slík tilskipun lögð fram og síðar innleidd gæti hún haft verulega þýðingu fyrir Ísland í gegnum EES-samninginn og skapað skýrari ramma um notkun gervigreindar í íslensku atvinnulífi, með aukna vernd réttinda starfsfólks að leiðarljósi.
Tengdar færslur
18. desember 2025BHM sendir kvörtun til umboðsmanns Alþingis
18. desember 2025Opnunartími BHM yfir hátíðarnar
10. desember 2025Aðgerðahópur leggur til áætlun um brúun umönnunarbilsins
5. desember 2025Fréttabréf BHM - desember 2025
4. desember 2025BHM, ASÍ og BSRB vísa máli um tryggingavernd starfsfólks í hlutastörfum til ESA
3. desember 2025Hlutverk og starfsskilyrði embættismanna: BHM skilar umsögn
