Tugmilljóna tekjufórn
Ungt fólk stendur frammi fyrir tveimur kostum að loknum framhaldsskóla; fara beint á vinnumarkað eða leggja á sig nám í háskóla eða iðn- og tækniskóla sem varir í 4-6 ár að meðaltali og 10-15 ár að hámarki. Verði frekara nám fyrir valinu og ekki unnið með námi má ætla að fólk verði af 9 mánaða tekjum ár hvert. Miðað við tölur Hagstofu um heildarlaun ósérhæfðra má gróflega áætla meðaltekjufórnina á námstíma sem 25-30 milljónir króna. Til viðbótar kemur kemur svo kostnaður vegna námsgagna og aðfanga svo ekki sé minnst á tap í lífeyristekjum síðar meir. Ungt fólk fórnar nefnilega verðmætustu ávinnsluárum ævinnar gagnvart lífeyristekjum meðan það er í námi.
Arðsemistölur á rauðu
Þó fólk velji háskólanám af fleiri hvötum en fjárhagslegum þarf menntunin almennt að vera arðbær fyrir einstaklinginn, tekjuaukinn þarf að vega kostnaðinn upp. Hér blikka allar tölur rauðar en samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar sem unnin var fyrir BHM á árinu 2022 er arðsemi háskólamenntunar miklu minni á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Tölur Eurostat teikna upp sömu mynd en ávinningur háskólamenntunar var hér sá minnsti í Evrópu árið 2018, fyrir tíma lífskjarasamningsins. Samnings sem skilaði lægst launuðu hópunum allt að 40% kaupmáttaraukningu en háskólamenntuðum nær engri kaupmáttaraukningu! Þessi mikli munur í árangri háskólamenntaðra og annarra jókst enn frekar með nýgerðum kjarasamningum á almennum markaði ef horft er til launahækkana og aðgerða stjórnvalda. Í sumum tilfellum jafngilti samningurinn tugum prósenta í launahækkunum fyrir einstaka hópa en launahækkanir sem nú standa stéttarfélögum háskólamenntaðra til boða næstu fjögur ár eru 3,25% - 3,5% árlega. Lítið sem ekkert kemur til viðbótar úr pakka stjórnvalda
Komum okkur út úr vítahring upphrópana
Stundum virðist sem kjarabaráttan á Íslandi sé föst í vítahring upphrópana og málefnaleg skoðanaskipti látin víkja fyrir flokkadráttum, ímynduðu stéttastríði og innbyrðis átökum. Þetta hefur BHM ítrekað mátt reyna þegar bandalagið ljær máls á vanda háskólamenntaðra. Staðreyndamiðuð umræða um tekjujöfnuð (sá mesti á Íslandi) er lögð út á versta veg og bandalagið sagt vilja auka ójöfnuð í tekjum á kostnað annarra. Ekkert gæti verið fjarri sanni. Kjarabarátta á ekki að snúast um innbyrðis átök milli launafólks heldur þá sjálfsögðu kröfu að allt launafólk fái réttmæta umbun fyrir sín störf, óháð menntun. Menntunin ætti hins vegar, ef allrar sanngirni er gætt, að vera arðbær fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Vandinn er margbrotinn
Vandi háskólamenntaðra á Íslandi er margbrotinn. Hann tengist ómarkvissri atvinnustefnu í sveiflukenndu hagkerfi, illa fjármögnuðu velferðar- og menntakerfi og að lokum árangri við kjarasamningsborðið. Háskólamenntaðar stéttir hafa fært fram málefnanleg rök fyrir því að kaupmáttur þeirra þurfi að vaxa á næstu árum, en hafa jafnframt bent á mikilvægi þess að bæta starfsaðstæður og mönnun tiltekinna starfsgreina. Það verður best gert með aðgerðum í kjarasamningum og samtali um heildarsamhengi hlutanna. Ef ekki tekst að færa þessa þætti til betri vegar mun draga úr ásókn í háskólamenntun á næstu árum, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á velferð allra. Látum það ekki gerast.
Grein Kolbrúnar Halldórsdóttur formanns BHM birtist í Morgunblaðinu 7. september 2024