
Þar fagna samtökin markmiðum frumvarpsins, en gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við fjármögnun og aðkomu launafólks að stefnumótun og framkvæmd aðgerða.
Í umsögninni er bent á að engin raunveruleg trygging sé fyrir því að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði hrint í framkvæmd, þar sem ekki er að finna neinar skýrar skuldbindingar um fjármögnun hennar. Aðeins er vísað til þess að hver ráðherra standi straum af aðgerðum á sínu málefnasviði, eftir því sem fjárheimildir leyfa.
„Slík vísun til almenns fjárhagslegs svigrúms ráðuneyta veitir enga raunverulega tryggingu fyrir því að aðgerðaáætlun verði hrint í framkvæmd,“ segir í umsögninni.
Fulltrúar launafólks missa sæti við borðið
Samtökin gagnrýna jafnframt að aðkoma launafólks að stefnumótun í loftslagsmálum sé skert. Í frumvarpinu er lagt til að loftslagsráð verði skipað eingöngu sérfræðingum, en að fulltrúar launafólks og atvinnurekenda víki úr þeim sætum sem þeir hafa haft.
Þá vekja þau athygli á því að Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum, hafi frá stofnun árið 2019, verið án aðkomu launafólks. Þar sitji einungis fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs.