
Þar fagna samtökin markmiðum frumvarpsins, en gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við óljós áform um fjármögnun loftslagsaðgerða og skort á aðkomu launafólks að stefnumótun og framkvæmd aðgerða.
Í umsögninni er bent á að engin raunveruleg trygging sé fyrir því að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði hrint í framkvæmd, þar sem ekki er að finna skuldbindingar um fjármögnun hennar. Aðeins er vísað til þess að hverjum ráðherra sé ætlað að standa skil á aðgerðum á sínu málefnasviði, eftir því sem fjárheimildir leyfa.
„Slík vísun til almenns fjárhagslegs svigrúms ráðuneyta veitir enga raunverulega tryggingu fyrir því að aðgerðaáætlun verði hrint í framkvæmd,“ segir í umsögninni.
Samtök launafólks missa sæti í Loftslagsráði
Samtökin gagnrýna jafnframt að aðkoma samtaka launafólks að stefnumótun í loftslagsmálum sé skert. Í frumvarpsdrögunum er lagt til að Loftslagsráð verði eingöngu skipað sérfræðingum, en að fulltrúar launafólks og atvinnurekenda víki úr þeim sætum sem þeir hafa haft fram að þessu.
Heildarsamtökin lýsa sig þó reiðubúin til að styðja þær breytingar, svo fremi að stjórnvöld setji á fót formlegan vettvang um réttlát umskipti, sem er eitt af mikilvægustu áherslumálum samtakanna.
Þá er vakin athygli á því að Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum, hafi frá stofnun árið 2019, verið án aðkomu launafólks. Þar sitji einungis fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs. Slíkt fyrirkomulag fari á svig við fyrirmynd samráðsvettvangsins, sem fengin er frá Danmörku.